Amber og Jónas Aron best í Tindastól

Bestu leikmenn Tindastóls sumarið 2021 Jónas Aron og Amber.
Bestu leikmenn Tindastóls sumarið 2021 Jónas Aron og Amber.

Uppskeruhátíð meistaraflokka Tindastóls í fótbolta var haldin á veitingastaðnum Sauðá á Sauðárkróki sl. laugardagskvöld að viðstöddum allflestum leikmönnum liðanna, þjálfurum og stjórn. Þar voru bestu og efnilegustu leikmennirnir valdir ásamt bestu liðsfélögunum.

Þó uppskerubrestur hefði orðið hjá meistaraflokkum Tindastóls þetta sumarið þótti samt tilvalið að koma saman og kveðja þetta tímabil með von um ríkari uppskeru næst. Fótbolti er jú leikur sem býður upp á miserfiðar brekkur og stundum þarf að fagna þó ekki sé til annars en að undirstrika hve skemmtilegur leikurinn er þegar allt er á botninn hvolft.

Besti leikmaður kvennaliðs Tindastóls var valin Amber Michel en hún átti hvern stórleikinn á fætur öðrum í marki Stólanna. Annar markmaður liðsins, Margrét Rún Stefánsdóttir, var talinn sá efnilegasti en hún gat ekki tekið við sínum verðlaunum þar sem hún er í verkefni með landsliði U- 17 í undankeppni EM 2022. Besti liðsfélaginn var kjörin Anna Margrét Hörpudóttir.

Hjá strákunum þótti Jónas Aron Ólafsson hafa staðið sig best í sumar en hann mætti skilgreina sem miðjumann þó hann leysi fleiri stöður á vellinum þegar þess er þörf. Hann lék 20 leiki, gerði eitt mark en uppskar fjögur gul spjöld og eitt rautt, en líklega taldi það ekki í þessu uppgjöri.

Tindastóll er sérlega vel statt með markverði því efnilegasti leikmaðurinn var valinn hinn 16 ára Einar Ísfjörð Sigurpálsson og kom hann við sögu í fjórum leikjum í sumar og stóð sig með mikilli prýði.

Atkvæði féllu að jöfnu í kjöri um besta liðsfélagann en þar verða þeir Ísak Sigurjónsson og Anton Helgi Jóhannsson að skipta með sér tímanum sem þeir varðveita bikarinn sem þeir hlutu að launum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir