Allt í járnum hjá Kormáki/Hvöt og KÁ
Fyrri leikur Kormáks/Hvatar og KÁ í átta liða úrslitum 4. deildar fór fram á Ásvöllum í Hafnarfirði í gærdag. Húnvetningarnir byrjuðu með glæsibrag og náðu tveggja marka forystu í fyrri hálfleik. Heimamenn minnkuðu muninn fyrir hlé og jöfnuðu síðan í blálokin og því er allt í járnum í rimmu liðanna.
Viktor Ingi Jónsson hefur verið duglegur við að setja boltann í mark andstæðinga Kormáks/Hvatar að undanförnu og hann var snöggur að setja mark sitt á leikinn í gær, skoraði á 14. mínútu. Juan Carlos Dominguez Requena bætti við öðru marki gestanna á 25. mínútu. Bjarki Þorsteinsson minnkaði muninn á 37. mínútu og staðan því 1-2 í hálfleik. Egill Örn Atlason gerði síðan jöfnunarmark heimamanna á 90. mínútu og þar við sat.
Síðari leikur liðanna verður á Blönduósvelli nk. miðvikudag og hefst kl. 16:30. Með sigri kemst Kormákur/Hvöt í undanúrslit. Í öðrum leikjum úrslitakeppninnar vann Hamar 0-2 útisigur gegn KH, ÍH sigraði Kríu 3-0 og KFR, sem var í B-riðli líkt og Kormákur/Hvöt, bar sigurorð af lið KFS, 2-1.
Stuðningsmenn verða væntanlega að klæða sig vel á miðvikudag því Veðurstofan gerir ráð fyrir eins stigs hita, norðvestan átt og slyddu. Það er semsagt útlit fyrir hressandi áhorf. Áfram Kormákur/Hvöt!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.