Allir í Síkið – styðjum Stólastúlkur alla leið!
Síðasti meistaraflokks-heimaleikur tímabilsins í körfunni verður í kvöld þegar lið Tindastóls og Aþenu mætast í fjórða skipti í einvígi liðanna um sæti í Subway-deild kvenna í haust. Stólastúlkur verða að krækja í sigur í kvöld til að tryggja sér oddaleik í Breiðholtinu nk. laugardag en Aþena leiðir einvígið 2-1. Það er því um að gera fyrir alla stuðningsmenn Tindastóls að fjölmenna í Síkið, búa til geggjaða stemningu og bæta þannig nokkrum hestöflum við þennan kagga sem liðið okkar er.
Leikurinn hefst á hefðbundnum helgitíma körfuboltans, eða kl. 19:15, en veislan hefst sunnan við Síki klukkan 17:30 því þá verður tjaldið góða opnað. Venju samkvæmt verður að hægt að gæða sér á gómsætum hamborgara og einhverju með honum. Í tjaldinu getur fólk líka hlustað á góða tónlist og komið sér í stuðningsgírinn. Síkið verður síðan opnað áhorfendum kl. 18:30 en miðasala er við inngang að þessu sinni.
Þeir sem ekki komast í Síkið geta horft á leikinn á hinu magnaða TindastóllTV. Síðustu tveir leikir liðanna hafa verið æsispennandi og það verður varla nein breyting á því í kvöld. Fjölmennum í Síkið – þetta baráttuglaða lið okkar á það sannarlega skilið. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.