Akureyringar sterkari á lokakaflanum og Maltbikarinn úr sögunni hjá Stólunum

Tindastólsmenn sóttu spræka Þórsara heim til Akureyrar í dag og var leikurinn liður í 16 liða úrslitum Maltbikarsins. Það var því sannkallaður Norðurlandsslagur sem boðið var upp á og stóð hann undir nafni því baráttan var í algleymingi. Stólarnir voru yfir í hléi en heimamenn komu einbeittir til leiks í síðari hálfleik og á lokamínútum leiksins reyndust þeir sterkari og sigruðu 93-81.

Stólarnir fóru betur af stað en Þórsarar jöfnuðu fljótlega og voru yfir 23-20 að loknum fyrsta leikhluta. Þegar annar leikhluti var hálfnaður var staðan 34-32 fyrir Þór en þá náðu Stólarnir, með Caird og Hester í stuði, góðum kafla og Stólarnir komust yfir, 36-42. Þórsarar gerðu næstu sjö stig og komust aftur yfir en Caird sá til þess að Stólarnir voru yfir í hálfleik, 44-50.

Stólarnir náðu mest níu stiga forystu í upphafi þriðja leikhluta en 3ja stiga karfa frá Darrel Lewis kveikti á Þórsurum. Þeir unnu sig hægt og sígandi inn í leikinn og Lewis jafnaði 63-63. Akureyringar höfðu frumkvæðið næstu mínútur en tvær körfur frá Hester og Pétri sáu til þess að Stólarnir voru einu stigi yfir, 70-71, fyrir lokafjórðunginn.

Heimamenn náðu forystunni fljótlega en þristur frá Hannesi kom Stólunum yfir, 75-76. Þórsarar svöruðu að bragði og jafnræði var með liðunum þar til sex mínútur voru eftir. Þá var eins og Stólarnir lentu á vegg í sóknarleiknum. Ingvi Rafn kom Þórsurum átta stigum yfir, 86-78, þegar fjórar mínútur voru eftir og eftir það leystist leikurinn upp í mikla varnarbaráttu og illa útfærðar sóknir. Tryggvi Snær og allir hans 216 sentimetrar reyndist Stólunum talsverð hindrun (sex blokkuð skot í leiknum) og Þórsarar sigldu heim sætum sigri.

Hester og Caird voru yfirburðamenn í liðii Tindastóls í dag. Hester gerði 32 stig og tók 11 fráköst en Caird gerði 27 stig og tók sjö fráköst. Aðrir leikmenn voru undir tíu stigunum og náðu sér ekki á strik. Lið Þórs er sterkt með einn kana og tvo hálfkana og risinn Tryggvi Snær verður bara betri með hverjum leik. Þá þekkja Stólarnir vel til getu Þrastar Leós og Ingva Rafns. Í liði Þórs var fyrrum Tindastólsmaðurinn, Darrel Lewis, öflugastur með 31 stig og átta fráköst.

Draumurinn um Maltbikarinn er því úti að þessu sinni og þá er ekkert annað í stöðunni en að óska Þórsurum velgengni í keppninni.

Tölfræði leiks á vef KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir