Akureyringar með rothögg á lokasekúndunni
Meiri verður dramatíkin varla á fótboltavellinum en í kvöld þegar lið Tindastóls og Þórs/KA mættust á Sauðárkróksvelli. Lið Tindastóls leiddi lengstum í leiknum en gestirnir tóku yfir leikinn í síðari hálfleik, jöfnuðu metin þegar um 20 mínútur voru eftir og gerðu síðan sigurmarkið bókstaflega með síðasta sparki leiksins – rothögg um leið og bjallan klingdi! Svekkjandi úrslit fyrir Stólastúlkur en kannski má segja að sigur Þórs/KA hafi verið sanngjarn að þessu sinni. Lokatölur 1-2.
Það var frábært fótboltaveður í kvöld, stillt og hlýtt og glampandi sól þangað til sólin skreið á bak við Stólinn. Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en lið Tindastóls virkaði hættulegra í sínum sóknaraðgerðum. Murr var aðgangshörð strax í byrjun og það skapaðist oft hætta þegar hún komst á skrið með boltann. Hún braut enda ísinn með skallamarki á 22. mínútu, hamraði boltann í markið eftir aukaspyrnu frá Laufeyju. Hennar fyrsta mark í Pepsi Max deildinni. Lið Tindastóls færði sig aðeins aftar á völlinn eftir þetta, reyndi að sækja hratt en að þessu sinni gekk illa að finna samherjana.
Gestirnir frá Akureyri þurftu að sækja í síðari hálfleik til að fá eitthvað út úr leiknum og þeim tókst að ýta liði Tindastóls aftar á völlinn. Colleen Kennedy sýndi góð tilþrif, var sívinnandi og ógnandi. Í öftustu línu hafði fyrirliðinn Arna Sif Ásgrímsdóttir, góð tök á Murr sem fékk fáa góða bolta til að gera eitthvað við. Á 70. mínútu kom Sandra Nabweteme inn á hjá gestunum og þremur mínútum síðar hafði hún jafnað eftir varnarmistök og einbeitingarleysi í liði Tindastóls. Bæði lið lögðu nú allt undir til að finna sigurmarkið, barist um hvern bolta, en áfram voru þó sóknir gestanna hættulegri. Amber kom nokkrum sinnum til bjargar í marki Tindastóls en hún kom engum vörnum við þegar Nabweteme fór illa með varnarmann Stólastúlkna eftir að hafa fengið boltann utarlega í teignum. Síðan renndi hún boltanum í stöngina og inn um leið og fjórar mínútur uppbótartímans kláruðust. Stólastúlkur tóku miðju og dómarinn flautaði af um leið.
Sóknarleikur Tindastóls var ekki nægjanlega góður að þessu sinni, sérstaklega eftir því sem á leikinn leið, og helst að hætta skapaðist upp úr föstum leikatriðum. Vörnin var þétt og góð framan af en jöfnunarmarkið virtist riðla leik Tindastóls.
ÞórKA gekk á lagið og refsaði okkur
Feykir bað Guðna Þór í þjálfarateymi Tindastóls um hans mat á lokakafka leiksins. „Það verður að segjast að röð grundvallarmistaka hafi átt sér stað undir lokin. Slæmar ákvarðanir, rangar staðsetningar, léleg dekkun– allt hlutir sem við erum langt því frá að vera þekkt fyrir. Þór/KA gekk á lagið og refsaði okkur,“ sagði Guðni.
Hvernig fannst þér leikur Tindastóls og hvað þurfum við að gera betur? „Mér fannst við hafa góða stjórn á leiknum allt að 70. mínútu. Við í þjálfarateyminu vorum nokkuð sáttir með stóran part af leiknum og við vörðumst vel sem lið að venju og vorum hættuleg í öllum föstum leikatriðum en það er stutt á milli hláturs og gráturs og því miður gerum við dýr mistök sem lið í efstu deild refsa fyrir. Við erum langt því frá að vera að baki dottin. Þetta er ofboðslega súrt en svona er fótboltinn og við lærum af þessum leik og komum sterkari til baka.“
Næsti leikur er reyndar í Mjólkurbikarnum nú á mánudagskvöldið þegar Stólastúlkur heimsækja Breiðablik sem sigraði Valskonur 3-7 á Hlíðarenda fyrr í kvöld.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.