5-0 tap gegn sterkum Völsurum
Tindastóll tók á móti vel skipuðu Valsliði í Pepsí Max deild kvenna á Sauðárkróki í gær og mættust liðin sem spáð er annars vega efsta sætinu og því neðsta samkvæmt Fótbolti.net. Ekki er hægt að segja að leikurinn hafi verið jafn þar sem Valur réði ferðinni allan tímann en heimastúlkur vörðust vel og áttu nokkrar góðar sóknir og tækifæri til að skora.
Það var hins vegar landsliðskonan Elín Metta Jensen sem braut ísinn fyrir gestina og skoraði fyrsta mark leiksins á 36. mínútu. Þannig var staðan í hálfleik og von heimastúlkna lifði um að skyndisóknir þeirra bæru árangur og þær myndu að jafna leikinn. Sá möguleiki var vissulega fyrir hendi en minnkaði þó verulega í seinni hálfleik er Murielle Tiernan þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla og lengdist þar með sjúkralisti liðsins. Inn fyrir hana kom ung og bráðefnilegur leikmaður, hin 15 ára Magnea Petra Rúnarsdóttir, og lék sinn fyrsta leik í efstu deild og stóð sig með stakri prýði.
Á 70. mínútu kom Krista Sól Nielsen inn á, en hún er að koma til eftir mjög erfið meiðsli sem hún hlaut 2019, í stað Sylvíu Birgisdóttur.
Skiptingunni var varla lokið þegar Ída Marín Hermannsdóttir afgreiddi boltann í net gestgjafa og staðan 2-0 og þá ljóst að erfitt myndi fyrir stóla að krækja sér í stig í leiknum og korteri seinna gerði Elín Metta þær vonir að engu er hún skoraði sitt annað mark og þriðja Valsstúlkna og allar flóðgáttir opnar. Þjálfarar Stóla, Guðni Þór, Óskar Smári og Konráð Freyr, gerðu þrefalda skiptingu og komu þær Anna Margrét Hörpudóttir, Lara Margrét Jónsdóttir og Birna María Sigurðardóttir inn á fyrir Dominiqe Evangeline Bond-Flasza,
Kristrúnu Maríu Magnúsdóttur og Jacqueline Altschuld, sem allar höfðu staðið vaktina með sóma. En þegar venjulegur leiktími var að renna út bætti Ásdís Karen Halldórsdóttir fjórða markinu við fyrir Valsara og rétt áður en dómari flautaði leikinn af kom það fimmta frá Clarissa Larisey og þar við sat.
Þrátt fyrir stóran skell geta Stólastúlkur gengið stoltar frá leiknum og tekið dýrmæta reynslu með sér í næstu leiki.
Óskar Smári þjálfari viðurkenndi að um erfiðan leik var að ræða: „En það var svo sem vitað fyrir leik. Við ætluðum að halda skipulagi og halda í okkar gildi. Í hálfleik var staðan 1-0 og við breyttum aðeins um taktík og það gekk ágætlega upp til að byrja með, en við náðum því miður ekki að gera nægilega mikið með boltann. Það eru alltaf jákvæðir punktar í öllum leikjum. T.d. spilar Magnea Petra, 15 ára leikmaður, sinn fyrsta úrvalsdeildarleik og kemur flott inn á. Stundum er hægt að henda ungum leikmönnum í djúpu laugina og við gerðum það í þessu tilviki. Við vorum mjög svekktir með síðustu 10 mínúturnar, en út á við er 2-0 töluvert skárra en 5-0. Uppgjöf í lokin er eitthvað sem við þurfum að læra af og klára leikina í 90+ mínútur.“
Varðandi sjúkralistann segir Óskar Smári að staðan væri að skýrast og vonandi verði allir leikmenn klárir í næsta leik.
„Í lokin viljum við þjálfarar hrósa okkar fólki sem fjölmennti á völlinn, það var geggjað að fá þennan stuðning. Umgjörðin hér á Sauðárkróki er upp á 10, og ætlum við sem lið að sjá til þess að í framhaldinu verði bæði umgjörð og lið Skagafirði til mikillar fyrirmyndar. Það er stutt í næsta leik, þannig að við svekkjum okkur á tapinu í dag, en svo er allur fókus farinn í leikin gegn Fylki. Áfram Tindastóll!“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.