170 þátttakendur gengu á Skíðagöngumóti í Fljótum

Frá keppni í skíðagöngunni í Fljótum í gær. MYND AF FACEBOOK-SÍÐU KEPPNINNAR
Frá keppni í skíðagöngunni í Fljótum í gær. MYND AF FACEBOOK-SÍÐU KEPPNINNAR

Það er ekki laust við að það hafi orðið ansi hressileg fólksfjölgun í Fljótum í Skagafirði í gær þegar fram fór hið árlega skíðagöngumót Fljótamanna. Á Facebook-síðu mótsins segir að mótið hafi verið algerlega ótrúlegt en um 170 þátttakendur gengu í blíðu og gleði.

Keppt var í fimm vegalengdum; 1 km göngu, 2,5 km göngu, 5 km göngu, 10 km göngu og loks 20 km göngu. Flestir þátttakenda tóku þátt í 20 km göngunni en þar voru 77 skráðir til keppni en 70 komust alla leið. Fyrstur í mark var skíðagöngugarpurinn Sævar Birgisson (1988), sonur Bigga Gunnars og Þorgerðar Sævars. Sævar gekk 20 kílómetrana á 57 mínútum og 51 sekúndu. Í öðru sæti varð Elsa Guðrún Jónsdóttir (1986) á 1:01:08 og í þriðja sæti var Birkir Þór Stefánsson (1968) á 1:02:08. 

Valtýr Sigurðsson, var elstur karla sem skiluðu sér í mark í 20 km göngunni, fæddur 1945, en elsti keppandinn var Gerður Steinþórsdóttir, fædd 1944. Þá má geta þess að fyrrum ritstjóri Feykis til fjölmargra ára, Þórhallur J. Ásmundsson, endaði í 10. sæti í göngunni.

Feykir óskar öllum þátttakendum Fljótagöngunnar til hamingju með árangurinn. Nánari upplýsingar um árangur keppenda má sjá á Tímataka.net og fleiri myndir frá keppninni er hægt að skoða á heimasíðu keppninnar á Facebook >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir