Wake Me Up Before You Go Go! í Miðgarði

Nemendur á unglingastigi Varmahlíðarskóla standa í stórræðum þessa dagana en í dag kl. 17 frumsýna þeir gleðisprengjuna Wake Me Up Before You Go Go! í Menningarhúsinu Miðgarði. Handritið er eftir Hallgrím Helgason, Íris Olga Lúðvíksdóttir leikstýrir og sýningin því eðlilega stútfull af gleði og söng. Að sýningu lokinni verður slegið upp balli en síðari sýningin verður annað kvöld, föstudaginn 13. janúar kl. 20, og að henni lokinni verður veislukaffi. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Trostan Agnarsson skólastjóra.

„Að þessari sýningu koma allir nemendur á unglingastigi en þeir eru 33 í ár. Æfingatíminn er ekki ýkja langur, raunar er fyrst og fremst æft eftir áramót. Fyrir áramót er þó ákveðið hvaða leikverk verður fyrir valinu, raðað í hlutverk og byrjað að æfa dansa,“ segir Trostan aðspurður um hversu margir koma að sýningunni og hvernig undirbúningi er háttað.

Hvað er flóknast við að koma svona sýningu á svið? „Margt getur verið flókið í svona sýningu og á undirbúningstímabilinu. Það flóknasta er líklegast að fá alla til þess að lifa sig að öllu leyti inn í sýninguna og að verða önnur persóna um stundarsakir til þess að geta fært áheyrendur með sér í annan heim. Um leið má segja að það sé það skemmtilegasta við svona ævintýri því að þegar vel tekst til geta allir samglaðst eftir mikla vinnu og glaðst yfir sameiginlegum sigrum.“

Sem fyrr segir er það Íris Olga Lúðvíksdóttir sem leikstýrir og fær að njóta þess að samhæfa og samstilla hópinn í því stóra verkefni að flytja áhorfendur aftur í tímann í björgunarleiðangur.

Trostan segir að allmikill söngur sé í sýningunni og erfitt að segja til um hvað verður vinsælast. „Hvert og eitt lag gegnir ákveðnu hlutverki og verður tíminn að leiða í ljós hvað lifir lengst í huga áheyrenda. Tvær sýningar verða, annars vegar á fimmtudag og hins vegar á föstudag og ættu allir að geta notið þess að sjá sýninguna og hugsað um boðskapinn. Þeir sem eru hugsi eftir fyrri sýninguna gætu líka komið aftur á föstudag til þess að velta málum betur fyrir sér og líka til þess að velja sér uppáhaldslag.“

Wake Me Up Before You Go Go! Hvernig á þetta að geta klikkað?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir