Vatnið komið í lag á Hvammstanga

Frá Hvammstanga. MYND: ÓAB
Frá Hvammstanga. MYND: ÓAB

Í annarri viku febrúarmánaðar kom upp grunur um mengun af völdum yfirborðsvatns í annarri af tveimur vatnslindum vatnsveitu Hvammstanga. Var lindinni lokað í kjölfarið en vonir stóðu til þess að lindin fengi grænt ljós nú fyrir helgi en sýnin sem tekin voru til að kanna hvort enn væri mengun í neysluvatninu týndust í flutningum. Ný sýni voru tekin fyrir helgi og samkvæmt tilkynningu á vef Húnaþings vestra í morgun hafa niðurstöður leitt í ljós að ekki er lengur um of hátt gerlainnihald að ræða. Ekki er því lengur þörf á að sjóða neysluvatn.

Um leið og grunur var um mengun var íbúum ráðlagt að sjóða allt neysluvatn þar til niðurstöður mælinga lágu fyrir. Grunurinn var staðfestur við sýnatöku og lindin tekin úr notkun í framhaldinu. Íbúar voru engu að síður beðnir um að halda áfram að sjóða neysluvatnið til öryggis þar til niðurstöður úr rannsókninni liggja fyrir.

Fram kemur á vef Húnaþings vestra að sveitarstjórn biðst afsökunar á óþægindunum sem þetta veldur og þakkar íbúum skilninginn.

Heimildir: Húnaþing.is og Húni.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir