Völsungur hafði betur í Mjólkurbikarnum
Tindastóll og Völsungur mættust í kvöld á Sauðárkróksvelli en um var að ræða leik í fyrstu umferð í Mjólkurbikars karla. Gestirnir spila deild ofar en Stólarnir og mátti því reikna með erfiðum leik fyrir heimamenn og sú varð raunin. Húsvíkingar voru talsvert sterkari á svellinu en Tindastólsliðið varðist ágætlega framan af leik. Tvö mörk gestanna í síðari hálfleik þýddu að Stólarnir eru úr leik í Mjólkinni.
Lið Tindastóls er enn langt frá því að vera fullskipað fyrir átök sumarsins en keppni í 3. deildinni hefst 8. maí. Leikið var við frábærar aðstæður í kvöld því enn hefur ekki hreyft vind á Króknum þetta sumarið og í þokkabót var sæmilega hlýtt. Það varð fljótt ljóst að Húsvíkingar voru sterkari aðilinn, þeir héldu boltanum betur og áttu nokkur hálffæri og skot utan teigs sem Atli Dagur í marki Tindastóls tók af öryggi. Það má segja að Stólarnir hafi átt eina eða tvær efnilegar sóknir í fyrri hálfleik en gekk annars illa að halda boltanum innan liðsins. Staðan þó 0–0 í hálfleik.
Lið Tindastóls hélt boltanum aðeins betur í síðari hálfleik og kom sér betur inn í leikinn. Fyrsta mark leiksins kom á 60. mínútu en eftir efnilega sókn Húsvíkinga fengu þeir hornspyrnu og úr henni skallaði Aðalsteinn Friðriksson boltann í netið. Stólarnir reyndu að færa sig framar og fengu ágætt færi en boltinn var sendur himinhátt yfir. Leikurinn opnaðist nú og Atli Dagur hélt Stólunum inni í leiknum með stórbrotinn markvörslu á köflum. Heimamenn urðu fyrir blóðtöku eftir 70 mínútna leik þegar Konni fyrirliði varð að yfirgefa völlinn meiddur. Þar með fór ankerið úr liðinu og ekki leið á löngu þar til gestirnir bættu við seinna marki sínu. Það gerði Santiago Abalo, en hann vann boltann á miðsvæðinu og geystist óáreittur að vítateignum þar sem hann náði hörkuskoti, stöngin inn, óverjandi.
Síðustu mínúturnar voru ansi þreytulegar hjá heimamönnum en kófpásan hefur sett strik í reikninginn hjá liðunum í undirbúningnum fyrir komandi Íslandsmót. Vonandi styttist í jákvæðar fréttir varðandi leikmannamál Tindastóls.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.