Virkja sköpunarkraftinn eða eignast nýja flík

Sigríður með What the Fade sjalið eftir Andreu Mowry í Edinborg.
Sigríður með What the Fade sjalið eftir Andreu Mowry í Edinborg.

Sigríður Herdís Bjarkadóttir er uppalinn Skagfirðingur en býr í Reykjavík með manninum sínum og tveimur köttum.

Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir?

Ég byrjaði fyrst að prjóna í handavinnu í grunnskóla. Fyrsta verkefnið mitt var garðaprjónsköttur sem var svo fast prjónaður að ég þurfti að ýta sokkaprjóninum í borðið til að geta komið honum í gegnum næstu lykkju. Mamma var nær alltaf með einhverja handavinnu í gangi heima þannig að ég fékk hvatningu og aðstoð til að prufa mig áfram utan skóla og sem unglingur þá prjónaði ég m.a. nokkrar peysur með misjöfnum árangri. Ég var ekki alltaf með e-ð á prjónunum en nógu reglulega til að þurfa ekki meiriháttar upprifjun til að byrja á nýju verkefni. Með árunum hefur prjónaáhuginn farið ört vaxandi, sérstaklega eftir að ég uppgötvaði handlitað garn (sem er mögulega sér áhugamál) og hvað það er auðvelt að læra nýja tækni með því að skoða myndbönd á internetinu.“

Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust?

Mér finnst alltaf skemmtilegast að prjóna en ég hekla líka öðru hverju og svo skellti ég mér á námskeið í Storkinum í fyrra til að rifja upp útsaum.“

Hverju ertu að vinna að um þessar mundir?

„Ég er yfirleitt með mörg verkefni í gangi sem henta við mismunandi aðstæður. Ég byrjaði til dæmis á klukkuprjónshúfu í júní til að hafa hentugt ferðaverkefni til að taka með mér til útlanda. Ég kláraði hana ekki í þeirri ferð þannig að hún bíður eftir næsta ferðalagi. Heima við er ég yfirleitt að prjóna peysu á mig og eitthvert sjal og það kemur fyrir að ég prjóna leikföng eða föt fyrir börn vina og ættingja.“

Hvar færðu hugmyndir?

„Ég fylgist töluvert með uppáhalds hönnuð-unum mínum og prjóni almennt á Instagram og Ravelry. Ég hlusta á hlaðvörp sem fjalla um prjónaskap og ég á góðar vinkonur sem hafa líka áhuga á prjóni og öðru handverki sem er gott að spjalla við um hverju maður er að vinna í eða er að íhuga að fara að gera. Ég hef farið á nokkrar prjónahátíðir, bæði innanlands og erlendis, þar sem flestir skarta sínu fallegasta handverki. Það að fara í gegnum það garn sem maður á getur líka vakið innblástur.“

Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með?

„Sjalið „What the fade?!“ er verkefni þar sem ég er bæði mjög ánægð með útkom-una og var einstaklega skemmtilegt að vinna. Þetta var leyniprjón hjá prjónahönnuðinum Andreu Mowry sem fór þannig fram að maður fékk að vita að þetta var sjal og maður þyrfti sex hespur af garni í fínbandsþykkt þar sem litirnir þyrftu að flæða saman, helst frá ljósu yfir í dökkt. Uppskriftina fékk maður svo í hlutum yfir nokkrar vikur. Ég náði að velja saman garn fyrir sjalið úr því sem ég átti nú þegar og úr varð mjög fallegt sjal.“

Eitthvað sem þú vilt bæta við?

„Fyrir mér er handverk ekki bara tækifæri til að gera eitthvað sem mér finnst skemmtilegt, virkja sköpunarkraftinn eða eignast nýja flík sem passar mér vel heldur er þetta líka streitulosandi. Að einbeita sér að því að prjóna eina lykkju í einu hreinsar hugann og hjálpar mér að slaka á. Hvernig sem útkoman verður þá a.m.k. fékk ég hugarró í lengri eða skemmri tíma út úr þessu.“

 

Áður birst í tbl. 30 Feykis 2022.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir