Vinsæll venjulegur heimilismatur

Matgæðingarnir Elísabet og Páll með börnunum fjórum. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Elísabet og Páll með börnunum fjórum. Aðsend mynd.

Elísabet Kjartansdóttir og Páll Bragason á Sauðárkróki voru matgæðingar Feykis í 1. tölublaði ársins 2017 og gáfu lesendum uppskriftir að vinsælum heimilismat á þeirra heimili. „Við ætlum ekki að fara alveg hefðbunda leið í þessu en venjan er að komið sé með uppskriftir að þriggja rétta máltíð en við ætlum ekki að gera það enda erum við venjulega ekki með forrétt á borðum hjá okkur. Við ætlum bara að koma með uppskriftir af venjulegum heimilismat sem er vinsæll hér hjá okkur en á heimilinu búa fjögur börn og það getur verið svolítil þraut að bjóða upp á mat sem öllum þykir góður. Við erum því með uppskrift af dásamlega góðu pestói sem er mjög gott ofan á kex eða á nýbakað brauð sem er ennþá betra. Við erum líka með uppskrift af mjög góðum kjúklingarétti sem er afar vinsæll hér á borðum hjá okkur, krakkarnir bóksaflega drekka sósuna og við Palli elskum kartöflurnar sem við höfum alltaf með. Þetta er allt svo saðsamt að það er óþarfi að hafa einhvern eftirrétt en við komum samt með uppskrift af einum laufléttum og góðum,“ sagði Elísabet.

Döðlu og ólífupestó

  • 1 krukka rautt pestó (ég nota frá Sacla)
  • ½ krukka af fetaosti (helmingurinn af olíunni líka)
  • 1½ dl svartar ólífur, gróft saxaðar
  • 1 dl af döðlum, smátt saxaðar
  • 2½ dl af kasjúhnetum
  • 3 hvítlauksrif, pressuð

Öllu blandað vel saman í skál. Gott að geyma í kæli í nokkra stund áður en borið er fram.

Kjúklingur í mildri chili-rjómasósu

  • 900 g kjúklingabringur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 1 stór peli rjómi (500 ml)
  • 2 kjúklingateningar
  • 1 tsk sambal oelek (chilli paste frá Santa Maria)
  • 2-3 msk chilisósa (t.d. frá Heinz, ekki sweet chilli sósa)
  • 2 dl rifinn ostur
  • 1 miðlungs blaðlaukur (skorin í sneiðar)
  • ristaðar furuhnetur

Aðferð:
Skerið kjúklingabringurnar í bita og setjið í eldfast mót og kryddið með kjúklingakryddi. Setjið blaðlaukinn yfir kjúklinginn. Hrærið saman í potti rjóma, sýrðum rjóma, kjúklingakrafti, chilisósu og sambal oelek og látið suðuna koma upp. Hellið heitri sósunni yfir kjúklinginn og setjið í 200° heitan ofn í u.þ.b. 20 mínútur. Stráið þá osti og furuhnetum yfir réttinn og eldið áfram í ca 15-20 mínútur.

Kartöflublanda

  • 1 stór sæt kartafla
  • 8 – 10 kartöflur
  • 1 krukka fetaostur
  • kartöflukrydd

Aðferð:
Takið hýðið af sætu kartöflunni. Skerið allar kartöflurnar í teninga og látið í eldfast mót. Kryddið með kartöflukryddi (eða öðru kryddi sem ykkur þykir gott). Hellið fetaostinum yfir kartöflurnar og látið góðan slatta af olíunni fara með. Eldið í ofninum með kjúklingnum.

Einföld marensbomba

  • 1 marensbotn (brotinn í bita)
  • 1 peli rjómi, þeyttur
  • 4 – 6 kókosbollur
  • 4 Mars súkkulaðistykki, sneitt í bita
  • fersk ber (ég nota bláber, jarðaber og hindber)

Aðferð:
Marensinn er brotinn og honum er dreift í botninn á skál eða eldföstu móti, kókosbollunum dreift yfir og því næst rjómanum. Fullt af berjum og Marsinu dreift yfir allt saman að lokum. Berist fram kalt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir