Vinnuvakan gaf af sér væna upphæð
„Við erum mjög ánægðar með mætingu fólks á Vinnuvökuna, annað væri vanþakklæti. Alls hafa líklega verið í húsinu 160-180 manns,“ sagði Sigríður Garðarsdóttir, formaður Kvenfélagasambands Skagafjarðar þegar Feykir spurðist fyrir um hina árlegu Vinnuvöku sem haldin var á Löngumýri um síðustu helgi.
„Sýning okkar með barnafötum fyrri ára sló í gegn en flest voru þessi föt heimaunnin. Þarna voru ungbarnaföt, hversdags og betri föt og svo sparigallar í ýmsum útfærslum, barnateppi og bleyjutaska. Íslenskur búningur og norskir búningar, litlar reiðbuxur af ungum knapa sem nú er virðulegur bóndi á Langholtinu. Kjólar af ýmsum gerðum og skírnarkjólar. Aðalgersemin var þó, að öðru ólöstuðu, 90 ára gamall skírnarkjóll saumaður af móður Indu í Lauftúni. Úr fannhvítri örþunnri bómullarblúndu og algjörlega blettalaus og afar sérstakur. Viljum við endilega þakka öllum þeim sem lánuðu okkur fötin, án þeirra hefði sýningin orðið lítilfjörleg,“ sagði Sigríður ennfremur.
„Basarinn gekk vel og kaffisalan með ágætum. Getum við því með hjálp alls þessa góða fólks styrkt Utanfararsjóðin um væna upphæð. Við erum afar glaðar og þakklátar,“ sagði Sigríður að lokum.
Meðfylgjandi myndir fékk Feykir leyfi til að nota en þær eru teknar af Sigrúnu Heiðu Pétursdóttur í Kvenfélagi Sauðárkróks.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.