Vilja Húnavallaleið aftur á dagskrá

Vegurinn um Langadal. Njáll Trausti og Ásmundur segja kaflann frá Blönduósi og um norðanverðan Langadal vera mjóan og hlykkjóttan og einn hættulegasta vegarkaflann milli Reykjavíkur og Akureyrir. MYND: ÓAB
Vegurinn um Langadal. Njáll Trausti og Ásmundur segja kaflann frá Blönduósi og um norðanverðan Langadal vera mjóan og hlykkjóttan og einn hættulegasta vegarkaflann milli Reykjavíkur og Akureyrir. MYND: ÓAB

Lögð hefur verið fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um Húnavallaleið en flutningsmenn eru Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, og Ásmundur Friðriksson þingmaður sama flokks í Suðurkjördæmi. Í frétt Húnahornsins um málið segir að tillagan feli í sér að Alþingi álykti að fela innviðaráðherra að fá Vegagerðinni það hlutverk að uppfæra forsendur fyrir uppbyggingu Húnavallaleiðar og hefja samtal við Húnabyggð um hvort Húnavallaleið verði bætt við sem nýframkvæmd í samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038.

Þá skal einnig metið hvort heppilegt sé að Húnavallaleið verði samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila í samræmi við lög um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir, nr. 80/2020.

Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars: „Markmiðið með lagningu nýs vegar væri, ásamt vegabótum, að stytta núverandi leið milli Reykjavíkur og Akureyrar. Umferðaröryggi myndi batna verulega vegna betri hæðar- og planlegu auk þess sem tengingum myndi fækka til muna. Núverandi vegur er 30,4 km langur og liggur frá Brekkukoti í Þingi, norður í gegnum Blönduós og að stað skammt austan við heimreið að bænum Skriðulandi í Langadal. Kaflinn frá Brekkukoti í Þingi og um Blönduós er ágætur. Aftur á móti er kaflinn frá Blönduósi og um norðanverðan Langadal mjór og hlykkjóttur, uppfyllir ekki kröfur um sjónlengdir samkvæmt veghönnunarreglum Vegagerðarinnar og er einn hættulegasti vegarkaflinn milli Akureyrar og Reykjavíkur. Fjöldi vegtenginga og vegamóta (a.m.k. 26 talsins, auk tenginga inn á tún) liggur að veginum og er slysatíðni há.“

Brýnni verkefni sem þarf að klára

Í opnuviðtali Feykis við Pétur Bergþór Arason, sveitarstjóra Húnabyggðar, í síðustu viku var hann einmitt spurður um hvað Húnvetningum þætti um hugmyndir um styttiingu þjóðvegar 1 framhjá Blönduósi og sagði hann skiptar skoðanir vera á þessu „... en það er algjörlega galið að tala um slíka framkvæmd á meðan að samgöngukerfi landsins er eins og það er í dag. Það eru ennþá tugir einbreiðra brúa á þjóðvegi 1, Öxnadalsheiði og Holtavörðuheiði eru miklir farartálmar á okkar svæði á vetrum o.s.frv. Þá væri einnig rétt að laga stöðuna í sveitarfélaginu okkar og á Norðulandi vestra áður en við förum að eyða milljarða tugum í gæluverkefni af þessu tagi. Það má skoða þetta einhverntímann en ef t.d. öryggi vegfarenda væri eitthvað sem skiptir máli, þá eru mörg verkefni á undan, en því hefur ranglega verið haldið fram að þess framkvæmd auki öryggi vegfarenda sem er ekki rétt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir