Vilja að höfuðstöðvar RARIK verði á landsbyggðinni
Húnahornið segir frá því að fimm þingmenn Framsóknarflokksins og þrír þingmenn Flokks fólksins hafa lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um flutning höfuðstöðva RARIK ohf. á landsbyggðina. Vilja þau að Alþingi feli fjármála- og efnahagsráðherra að stefna að flutningi höfuðstöðvanna og að hann kanni á grundvelli hagsmuna félagsins hvar væri hentugast að byggja upp höfuðstöðvarnar og efla starfsstöðvar RARIK um landið. Þingsályktunartillagan hefur tvisvar áður verið lögð frá, á 151. löggjafarþingi og því 153.
Starfsemi RARIK er dreifð um landið allt, m.a. í Stykkishólmi, Ólafsvík, Búðardal, Blönduósi, Sauðárkróki, Siglufirði, Akureyri, Kópaskeri, Þórshöfn, Vopnafirði, Nesskaupstað, Fáskrúðsfirði, Höfn, Selfossi og Hvolsvelli. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir að fólksfækkun á landsbyggðinni vegna flutninga til höfuðborgarsvæðisins hafi lengi verið meginvandamál samfélaga á landsbyggðinni. Meðal helstu ástæðna sé skortur á störfum og lítil fjölbreytni starfa.
Í greinargerðinni segir m.a.: „Atvinnuöryggi og fjölbreytni starfa tryggir stöðugleika í íbúafjölda, laðar frekar til sín nýja íbúa og stuðlar að því að ungt fólk snúi heim aftur eftir nám. Skortur á fjölbreytni skekkir hlutfall þeirra aldurshópa sem eru almennt virkastir á vinnumarkaðinum. Þetta leiðir til fækkunar íbúa sem hefur í för með sér skerðingu á útsvarstekjum sveitarfélaga. Mikilvægt er að tryggja jöfn búsetuskilyrði um land allt. Með því að dreifa ríkisstörfum jafnt um landið er hægt að tryggja öllum landsmönnum jöfn tækifæri ásamt því að halda landinu öllu í blómlegri byggð. Það er þó aðeins gert við rétt skilyrði, sem flutningsmenn telja vera fyrir hendi í tilviki flutnings Rariks ohf. á landsbyggðina.“
Sjá nánar á Húni.is >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.