Vigdís Edda í Meistaradeildinni með Blikum

Lið Breiðabliks í Litháen. Vigdís Edda er önnur frá vinstri í aftari röð en hún er dóttir Frigga Olla Fía og Ingu Huldar Þórðar Hansen. MYND AF FB
Lið Breiðabliks í Litháen. Vigdís Edda er önnur frá vinstri í aftari röð en hún er dóttir Frigga Olla Fía og Ingu Huldar Þórðar Hansen. MYND AF FB

Í síðustu viku fór fram undankeppni Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu og voru fjögurra liða riðlar spilaðir víðsvegar í Evrópu. Ekki var nú lið Tindastóls að sprikla á þessum vettvangi en það gerði hins vegar lið Breiðabliks og þar er ein stúlka með Tindastóls DNA, Vigdís Edda Friðriksdóttir, sprungulaus Króksari.

Blikarnir spiluðu sína tvo leiki í Litháen og fóru vægast sagt illa með andstæðinga sína. Sigruðu fyrst lið Klakksvíkur frá Færeyjum 7-0 og síðan mættust liðin sem höfðu unnið leiki sína og þá gjörsigruðu Blikar heimastúlkur í liði Gintra 8-1. Vigdís kom inn á sem varamaður í báðum leikjunum.

Feykir sendi Vigdísi nokkrar spurningar af þessu tilefni og spurði fyrst hvort draumur hefði verið að rætast með því að spila í Evrópukeppni. „Jú vissulega hefur það verið draumur að spila í Meistaradeildinni og ekki sjálfsagt að fá að upplifa það. Jú, það er sérstaklega spennandi að fara erlendis og spila,“ segir Vigdís Edda en hún er reyndar ekki fyrsta stelpan með Tindastóls DNA sem kemur við sögu í Meistaradeild kvenna. Árið 2012 lék kvennalið Stjörnunnar, sem þá var besta lið landsins, í Meistaradeildinni og með því spiluðu á þeim tíma tveir Króksarar; systurnar Inga Birna og Elva Friðjónsdætur. Samkvæmt upplýsingum Feykis gerði Elva einmitt fyrsta Evrópumark Stjörnunnar í Moskvu og þá að öllum líkindum fyrsta Meistaradeildarmark uppalinnar Tindastólsstelpu.

Kom getumunur liðanna á óvart eða vissuð þið fyrirfram að þið væruð mun sterkari? „Við áttum að eiga góða möguleika gegn Klaksvík frá Færeyjum en bjuggumst við meiru af Gintra frá Litháen sem hafa áður farið tvisvar í 16 liða úrslit í Meistaradeildinni.“

Næst mætið þið liði Osijek frá Króatíu, bæði úti og heima. Veistu eitthvað um það lið og hvernig er stemningin hjá Blikum fyrir Meistaradeildinni? „Ekki mikið en erum að byrja að kynna okkur liðið. Stemningin er mjög góð og þessi vika í Šiauliai þétti hópinn enn frekar. Það var frábært að komast áfram í 32 liða úrslit og fá að spila fleiri spennandi leiki. Framundan er aðeins vikustopp á Íslandi og síðan strembið ferðalag til Króatíu en allir klárir í það skemmtilega verkefni.“

Hvernig hefur þér fundist Pepsi Max deildin í sumar, er eitthvað sem hefur komið á óvart? „Deildin hefur verið jafnari en oft áður og eflaust skemmtilegri fyrir áhorfendur og mikið af óvæntum úrslitum.“

Hvað finnst Blikastúlkum um að mæta liði Tindastóls? „Við höfum mætt liði Tindastóls fjórum sinnum í ár og allir leikirnir verið baráttuleikir. Það var gaman en pínu sérstakt að mæta sínum gömlu liðsfélögum á gamla heimavellinum í fyrsta skipti. Stúkan er virkilega flott.“

Dreymdi þig um að skora í leiknum eða varstu fegin að skora ekki? „Ég fer í alla leiki til að vinna og reyni alltaf að skora. Ég hefði kannski ekki fagnað jafn mikið og vanalega í þessum leik,“ segir Vigdís Edda að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir