Við þökkum það sem vel er gert og hlökkum til næsta árs
Mánudagskvöldið 2. desember gerðu Sjálfsbjargarfélagar í Skagafirði sér glaðan dag og buðu til sín gestum, tilefnið var að Alþjóðadagur fatlaðra var daginn eftir og í tengslum við hann þótti okkur ánægjulegt að geta veitt fimm aðilum viðurkenningu fyrir gott aðgengi að þeirra fyrirtæki og stofnun. Þau eru Löngumýri, fræðslusetur kirkjunnar, Verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, KS verslun Hofsósi, Miðgarður menningarhús og Hjá Ernu Hársnyrtistofa.
Kvöldstundin var notaleg og yfir fjörutíu manns mættu og nutu yndislegrar dagskrár í tónum og tali þar sem tónlistarfólk söng og Solveig Lára talaði um aðventuþanka. Einu sinni áður höfum við veitt svona viðurkenningar og gátum þá veitt þær níu aðilum. Við erum bjartsýn og ánægð með það sem áunnist hefur í aðgengismálum, ánægð þegar gott samfélagsverk er unnið í þágu okkar allra. Það er nefnilega erfitt fyrir fólk sem alltaf hefur getað borið sig hiklaust um á tveimur jafnfljótum að setja sig í spor þeirra sem ekki geta það.
Það er alls ekki hægt að ætlast til að fólk viti hvernig sé best að standa að úrbótum varðandi aðgengi fyrir fatlaða, en það er hægt að ætlast til að fólk leiti upplýsinga um það, og í dag að muna eftir að aðgengið þarf að vera fyrir okkur öll. Við sem störfum í aðgengisnefnd Sjálfsbjargar höfum átt gott samstarf við sveitarfélagið og það fólk sem kemur að samgöngubótum í sveitarfélaginu okkar sem og annarra aðila. Við höfum mætt skilningi og vilja til að bæta úr því sem betur má fara og það er ánægjulegt. Það er hvati til að gera betur og á næsta ári sjáum við fram á að geta veitt viðurkenningar til enn fleiri aðila. Við höfum væntingar til þess að Skagafjörður muni skara fram úr varðandi aðgengi fyrir alla. Að hreyfihamlað ferðafólk geti notið þess sem héraðið okkar hefur upp á að bjóða, að við sjálf sem byggjum þennan fallega fjörð getum notið hans og þeirrar menningar og þjónustu sem hér er, óhindrað í framtíðinni. Það er markmiðið, þangað stefnum við.
Þakklæti fyrir kærleik í verki fá tónlistarfólkið, Auður Aðalsteinsdóttir, Sigvaldi Gunnarsson og tvíeykið Fúsi Ben. og Vordísin. Solveigu Láru þökkum við gott veganesti í orðum inn í desember. Gestum okkar þökkum við fyrir komuna og Skagfirðingabúð fyrir veitingar.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður Sjálfsbjargar í Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.