Við erum með gott lið og ætlum að vinna þetta í ár
Í kvöld fer Dominos-deild karla í körfubolta af stað og fær Tindastóll lið ÍR í heimsókn en þessi lið hafa eldað grátt silfur saman síðustu árin. Feykir hafði samband við Baldur Þór Ragnarsson, þjálfara Tindastóls, en hann segir að tímabilið framundan leggist vel í sig. „Það er í sjálfu sér lítið sem kemur mér á óvart. Mörg góð lið og þetta verður gaman,“ segir Baldur aðspurður um Dominos-deildina í vetur.
Ertu ánægður með æfingaleiki haustsins og undirbúninginn? „Já, ég er ánægður með leikina, gott að vera að spila körfubolta aftur og leikirnir hjálpuðu okkur í undirbúningi liðsins fyrir mót.“
Eru leikmenn Tindastóls klárir í slaginn í Dominos-deildinni? „Það eru smávægileg meiðsli hér og þar og við að fá leikmenn inn seinna plús sóttkví eins og önnur lið í deildinni. Þannig að fyrsta mánuðinn í mótinu mun vanta aðeins uppá leikform.“
Nú er rúmlega hálft ár síðan þú stýrðir Stólunum síðast í alvöru leik. Ertu orðinn spenntur að hefja leik að nýju og heldurðu að Covid eigi eftir að hafa áhrif á Dominos-deildina? „Ég er mjög spenntur og ánægður að við séum að byrja aftur. Ég hef engar áhyggjur af Covid en hins vegar verður bara að koma í ljós hvaða áhrif þetta hefur á mótið. Klárlega mun ástandið hafa áhrif á leikform fyrsta mánuðinn í mótinu svo ef lið lenda í því að fá Covid þá hefur það líka áhrif. Þetta er heimurinn í dag og við þurfum að vinna í þessu umhverfi og gera eins vel og við getum.“
Hvað finnst þér um um spár spekinga og fjölmiðlamanna sem ýmist eru að spá liði Tindastóls öðru eða efsta sæti í vetur? „Mér finnst það bara eðlilegt, við erum með gott lið og ætlum að vinna þetta í ár.“
Að lokum bendir Baldur Þór á að áhorfendur geta ýmist haft jákvæð eða neikvæð áhrif á leikinn. „Jákvæð áhrif eru hvetjandi og búa til orku fyrir liðið inni á vellinum, bæði þegar gengur vel og illa. Neikvæð áhrif er kvart, sérstaklega í dómurum, eða algjör þögn og stemmningsleysi – það gefur neikvæða orku. Hvernig áhrif vilt þú hafa?“
Leikurinn hefst venju samkvæmt kl. 19:15 í Síkinu og eru stuðningsmenn hvattir til að fjölmenna með jákvæðnina í farteskinu. Enda eiga menn að hafa vit á því að vera í góðu skapi, svo vitnað sé lauslega í mætan Skagfirðing. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.