„Veturinn verið einstaklega hliðhollur okkur,“ segir Friðrik Þór
„Framkvæmdir ganga betur en bestu áætlanir gerðu ráð fyrir enda hefur veturinn verið einstaklega hliðhollur okkur til byggingarframkvæmda,“ sagði Friðrik Þór Ólafsson, einn af eigendum Friðriks Jónssonar ehf. byggingaverktaka, þegar Feykir forvitnaðist um framkvæmdir við nýbyggingu á Barnaskólareitnum við Ránargötu á Sauðárkróki. „Þar að auki eru strákarnir hjá okkur alveg grjótharðir að láta hlutina gerast hratt og mikið gerst frá því að framkvæmdir hófust 3. október. Eins og staðan er núna er búið að loka húsinu, koma hita á það og innanhúsframkvæmdir að hefjast,“ segir Friðrik hæstánægður.
Mikil uppbygging hefur átt sér stað á Barnaskólareitnum en Friðrik Jónsson ehf. byggingaverktaki hafði áður breytt kennsluhúsnæðinu í 13 misstórar íbúðir, rifið leikfimisalinn gamla og byggt á grunni hans þannig að húsið er í svipaðri mynd og var nema í stað kennslustofa eru þar íbúðir. Nú er sem sagt unnið við nýbyggingu við Ránarstíg og í pípunum er að reisa íbúðir við Freyjugötu á þessum reit.
Hvenær má reikna með að húsin verði tilbúin í sölu? „Við reiknum með því að íbúðirnar við Ránarstíg verði klárar í sumar. Þar er verið að byggja þriggja íbúða raðhús með bílskúrum. Vonumst við til þess að þetta verði einstaklega skemmtilegar íbúðir þar sem aukin lofthæð er í öllum rým-um t.d. 3.3 m í stofunni. Eins erum við að horfa á að hafa allan útbúnað og byggingaraðferðir íbúðanna eins nútímalegan og kostur gefst, þar má nefna loftskiptikerfi og vandaðar hljóðvistar.“
Hvenær áttu von á að hafist verði handa við byggingar húsanna við Freyjugötu? „Eins og staðan er í dag erum við að vinna með sveitarfélaginu að tillögum af breyttu skipulagi á þeim lóðum. Ef þau áform ganga eftir getum við vonandi byrjað á þeim á þessu ári.“
Hvernig gekk að selja íbúðirnar í Barnaskólanum? „Sala á íbúðunum gekk mjög vel og fóru þær flestallar tiltölulega hratt. Það kom okkur sérstaklega á óvart hversu vel gekk að selja minnstu íbúðirnar, sem eru tæpir 50 fm, en við vorum ekki alveg vissir hversu góður markaður væri fyrir slíkar eignir hér á Króknum.“
Eru önnur stórverkefni sem F. Jónsson stendur í þessa dagana? „Við erum í nokkrum öðrum íbúðabyggingum og breytingum. Þar að auki erum við að stækka við okkur aðstöðubygginguna hjá okkur, húsið er löngu sprungið utan af okkur. Aukin umsvif hafa verið í gluggaframleiðslunni og á verkfræðistofunni okkar. Verkefnastaðan fyrir árið lítur bara mjög vel út, landbúnaðarbyggingar, íbúðarhúsnæði og ýmis-legt fleira,“ segir Friðrik að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.