Vetrarfærð á Norðurlandi vestra

Skjáskot af vef Vegagerðarinnar. Langidalur til vesturs.
Skjáskot af vef Vegagerðarinnar. Langidalur til vesturs.

Það er þungt yfir á Norðurlandi vestra og víða snjókoma. Langflestir vegir eru færir á svæðinu en sem stendur er snjóþekja eða hálka á vegum í Húnavatnssýslum og Skagafirði. Lögreglan á Norðurlandi vestra beinir því til vegfarenda að fara varlega. „Munum að hreinsa allan snjó af bílum og fylgjumst vel með gangandi vegfarendum. Víða eru gangstéttar á kafi í snjó svo hætta er á að fólk freistist til að ganga á akbrautum,“ segir í skilaboðum lögreglunnar.

Samkvæmt spá Veðurstofunnar þá bætir í vind þegar líður á daginn en skaplegt veður er þó í kortunum fram að áramótum. Gert er ráð fyrir talsverðu frosti fimmtudag og föstudag á Norðurlandi vestra en nokkuð misjafnt eftir svæðum hvort vindur nær sér á strik og því rétt fyrir þá sem stefna á ferðalög að fylgjast með spánni.

Talsvert hefur snjóað síðustu daga og reikna má með skafrenningi ef hvessir. Spáin fyrir gamlársdag gerir ráð fyrir éljum á svæðinu sem og á nýjarsdag. Enn eru þó nokkrir dagar í áramótin og margt getur breyst á þeim tíma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir