Verndandi gen gegn riðu hefur fundist í íslensku fé
Riða heldur áfram að hrella bændur og fyrir viku var enn eitt tilfellið staðfest á Syðra-Skörðugili í Skagafirði. Hingað til hefur niðurskurður verið eina svarið í baráttunni við þennan vágest en auk niðurskurðar smitaðrar hjarðar þarf að farga hverri kind sem látin hefur verið til annarra bæja frá sýkta bænum, líka öllum kindum frá öðrum bæjum sem hýstar hafa verið á riðubænum yfir nótt eða lengur, eins og fram kemur á heimasíðu MAST.
Hingað til hefur því verið haldið fram að verndandi arfgerðir gegn riðu í íslensku sauðfé væri ekki til en það hafi hins vegar fundist í erlendum stofnum. Sauðfé með þetta erfðaefni er mun ólíklegra til að fá riðu en annað fé.
Nú er hins vegar komið að tímamótum í baráttunni við riðuna þar sem verndandi gen hefur fundist en rannsóknir hafa staðið yfir síðan í vor sem gefa góða von um framhaldið.
Það gen sem fannst núna er annað en hefðbundna genið „ARR“ sem notað er úti til að rækta riðuþolið fé. Hægt er að kalla það T137 en stórar rannsóknir á Ítalíu sýndu að það virkar að minnsta kosti eins verndandi og ARR. T137 er mjög sjaldgæft á Íslandi en fannst nýlega á Norðurlandi vestra.
Markmið rannsóknanna er að finna nýjar arfgerðir í íslenska sauðfjárstofninum sem eiga að virka algerlega verndandi gagnvart riðusmiti. Hér er um fyrstu íslensku rannsóknin af þessu tagi í 20 ár en til stendur að skoða samtals 2300 einstaklinga um land allt auk 200 á Grænlandi.
Samhliða er verið að finna út hvaða riðustofnar eru til hér á landi en þó nokkrir ólíkir stofnar hafa fundist annars staðar. Sem lokaskref á að prófa allar „efnilegar“ íslenskar arfgerðir, fyrst og fremst T137, hvernig þær virka gagnvart öllum íslenskum stofnum. Þessar lokaniðurstöður eru væntanlegar í kringum áramót 2022/2023.
Myndin sýnir raðir úr príonpróteininu og eina nýja arfgerð sem virkar verndandi, sem ljósbláa örin bendir á.
Hugmyndin að rannsókninni, sem nefnist Á leiðinni að nýjum lausnum, leit dagsins ljós í Hvammshlíð snemma í vor en Karólína Elísabetardóttir hafði í nokkur ár fylgst með þróun riðuveiki, talað við bændur, dýralækna og líffræðinga hvar sem tækifæri gafst. Hún segir rannsóknarskýrslur frá ýmsum löndum um riðu, og um áhrif ákveðna arfgerða, hafi gefið skýra mynd af ástandinu og alvöru lausnir séu rétt handan við hornið, ef leitað er fyrir utan hefðbundins ramma. Þá kynntist hún þýskum dýralækni sem líka er sauðfjárbóndi en skólasystir hans reyndist vera riðusérfræðingur og prófessor í þýskum háskóla.
Karólína segir að próf. dr. Gesine Lühken hefði strax sýnt áhuga á málinu, eins og starfssystir hennar dr. Christine Fast frá þýsku miðstöðinni sem rannsakar príonsjúkdóma. Konurnar þrjár ákváðu að hleypa hinni veigamiklu rannsókn af stað og sóttu um styrk hjá Fagráði sauðfjárræktar. Í kjölfarið komu Eyþór Einarsson, RML, og Stefanía Þorgeirsdóttir, riðusérfræðingur á Keldum, inn í verkefnið, auk dýralæknanna Stefáns Friðrikssonar og Axels Kárasonar. Sérfræðingar frá Englandi og Ítalíu taka auk þess þátt og segir Karólína að þar með sé komin alþjóðleg rannsókn í gang sem er í þann mund að leysa íslenska riðuvandamálið.
Von er á Gesine prófessor til landsins þar sem hún mun kynna niðurstöður og segja frá rannsókninni á upplýsingarfundi sem haldinn verður fyrir sauðfjárbændur og aðra áhugasama, m. a. í Skagafirði.
Á dagskrá:
- Hvað er riðuveiki eiginlega og af hverju er hún svo hættuleg?
- Hvaða hlutverk spilar arfgerðin?
- Hvað er verið að rannsaka nákvæmlega og hverjar eru fyrstu niðurstöðurnar?
- Spurningar og umræða
Fundurinn verður á Löngumýri í Skagafirði, sunnudaginn, 26. september, kl 20.
Allir eru velkomnir og enginn aðgangseyrir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.