Verktakar verkefnahlaðnir og ekkert tilboð barst í vegabætur á Vatnsnesi
Húnahornið segir frá því að ekkert tilboð barst í vegabætur á Vatnsnesi en tilboðsfrestur hjá Vegagerðinni rann út í vikunni. Mjög hefur verið kallað eftir vegabótum á Vatnsnesi undanfarin ár en verkið sem um var að ræða var bygging17 metra langrar brúar yfir Vesturhópshólaá á Vatnsnesvegi, nýbyggingu vegar á um 1,0 kílómetra kafla og endurbyggingu á um 1,2 km löngum kafla milli Vesturhópshóla og Þorfinnsstaða.
Einnig var innifalið í verkinu bygging heimreiða og tenginga. Verkinu átti að vera fullu lokið eigi síðar en 1. ágúst 2022.
Húnahornið vitnar í frétt Morgunblaðsins þar sem rætt vra við G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, sem segir að verið sé að skoða hvaða möguleikar séu í stöðunni. Einn möguleiki sé að brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar smíði brúna og að sjálf vegagerðin verði boðin út sérstaklega. „Svo virðist sem verktakar sem gætu tekið að sér brúarsmíðina sjálfa séu afar verkefnahlaðnir á þessu svæði,“ segir G. Pétur í samtali við Morgunblaðið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.