Vel heppnuð sýning fyrir fullu húsi í Miðgarði
Árshátíð eldri nemenda í Varmahlíðarskóla fór fram fyrir fullu húsi í Miðgarði föstudaginn 15. janúar. Nemendur í 7. - 10. bekk skólans settu söngleikinn „6-tán á (von) LAUSU“ á svið eftir Gísli Rúnar Jónsson. „Sýningin tókst afskaplega vel,“ sagði Helga Rós Sigfúsdóttir, sem leikstýrði krökkunum, í samtali við Feyki.
Helga Rós segir söngleikinn fjalla um Hófí sem á 16 ára afmæli og fjölskylda hennar gleymir afmælinu hennar. Sýningin gerist á tveimur dögum í hennar lífi og er um hana, vini hennar og það sem er að gerast í kringum hana. Einnig kemur við sögu stórt brúðkaup sem fléttast inn í þetta allt saman. Sýningin hefur áður verið sett á svið hjá Verslunarskóla Íslands og öðrum grunnskólum.
„10. bekkingar báru hitann og þungann af þessu öllu saman og fóru með aðalhlutverkin. Æfingar hófust mánudaginn 4. janúar og var sýningin sett á svið 15. janúar. Æfingartímabilið er því aðeins tæpar tvær viku, en æft er bæði á skólatíma og eftir skóla. Einnig var einn laugardagur tekinn í æfingar. Þrátt fyrir knappan tíma gekk þetta allt upp og sýningin heppnaðist mjög vel,“ sagði Helga Rós.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á generalprufunni og sýningunni í Miðgarði. Myndasmiður er Unnur Erla.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.