Vel heppnað bókmenntakvöld

Margir komu til að hlíða á upplestur

Í gærkvöldi stóð

Héraðsbókasafnið fyrir bókmenntakvöldi í Safnahúsinu á Sauðárkróki. Lesið var upp úr nýjum bókum sem flestar eiga einhverskonar tengingar í Skagafjörðinn.

 

 

 

Rithöfundarnir sem lengst komu að voru þeir Ólafur Haukur Símonarson sem las upp úr bók sinni Fluga á vegg sem hann skilgreinir sem sanna lýgi um uppvaxtarár sín, Jón Björnsson og las hann upp úr sinni bók  Föðurlaus sonur níu mæðra en hann taldi að minni lýgi væri að finna í hans bók og loks Úlfar Þormóðsson sem las úr sinni bók Hallgrímur. Taldi hann að um enn minni lýgi væri að ræða en hjá Jóni þó hann væri með skáldsögu.

 

Gísli Ólafsson spilaði og söng

Einnig var lesið úr nýútkomnum „skagfirskum“ bókum. Guðný Axelsdóttir las upp úr bók föður síns  Heim með sunnanblænum eftir Axel Þorsteinsson. Gísli Þór Ólafsson las upp ljóð úr bók sinni Ég bið að heilsa þér, en hann söng líka og spilaði á gítar. Hjalti Pálsson las upp úr Skagfirðingabók og loks las Sigríður Kristín Jónsdóttir upp úr bókinni Amtmanninum á Einbúasetrinu eftir Kristmund Bjarnason.

 

 

 

 

 

Jón Björnsson tengdasonur Skagafjarðar

Tengingarnar í Skagafjörðinn eru misaugljósar hjá þeim sem lengstan veg komu en Úlfar á ættir að rekja í Skagafjörðinn svo og Hallgrímur Péturson sem hann skrifar um. Jón Björnsson var kynntur sem tengdasonur Skagafjarðar en tengdafaðir hans var Arnór Sigurðsson á Suðurgötunni en Ólafur gat best rakið ættir sínar í Skagafjörð í sjötta eða sjöunda ættlið.         

 Myndir: Hjalti Pálsson

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir