Veist þú um ljósmyndir af Stefáni Þór Theodórssyni og föður hans Theodór Hallgrímssyni?
Núna reynir á mátt Facebook, segir á síðu Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna en þar er verið að setja saman litla sýningu um sögu Tunguness bæjarins og Austur-Húnavatnssýslu. „Okkur vantar ljósmyndir af Stefáni Þór Theodórssyni og föður hans Theodór Hallgrímssyni. Ef einhver ykkar á ljósmyndir af þeim feðgum væri frábært ef þið hefðuð samband við okkur á safninu,“ segir í færslunni.
Feykir hafði samband við Sólveigu H. Benjamínsdóttur, forstöðumanns safna í Húnaþingi vestra og sagði hún að á Byggðsafni Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum í Hrútafirði stæði gamli Tungunesbærinn úr Austur – Húnavatnssýslu og sendi eftirfarandi texta:
„Bærinn var næsti bær við kirkjustaðinn Svínavatn sem stendur við samnefnt vatn. Þar nærri er vað yfir Blöndu og var Tungunes löngum gististaður ferðamanna áður en bílar komu til sögunnar.
Í Tungunesi var um 1850 reistur nýr bær, í brattri en gróinni hlíð þar sem mikið útsýni er um Langadal, Blöndudal og Vatnsskarð. Í Tungunesi var búið allt til loka sjötta áratugar 20. aldar. Bærinn í Tungunesi er talinn einstæður gripur í þróunarsögu íslenskrar byggingasögu þar sem hann er eini varðveitti bærinn á landinu, fyrir utan bæinn á Keldum á Rangárvöllum, með skálalagi því sem tíðkaðist á þjóðveldisöld. Bærinn var tekinn ofan 1988 og fluttur á Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna. Þá stóð aðeins framhluti hans uppi sem hefur að geyma 12m² stofu sem var aðal samkomusalur sveitarinnar um tíma og þótti hinn besti danssalur.
Sá sem lét reisa bæinn var einn af þekktustu Húnvetningum sinnar tíðar, Erlendur Pálmason dannebrogsmaður, látinn 1888. Síðustu ábúendur í Tungunesi voru Emilía Guðmundsdóttir, fædd 1893 og látin 1945, og eiginmaður hennar Theódór Hallgrímsson, fæddur 1900 og látinn 1969. Saman áttu þau soninn Stefán Þór Theódórsson, fæddur 1930 og látinn 2002. Hann bjó lengi með þeim í Tungunesi og aðstoðaði þau við búskapinn. Stefán gaf byggðasafninu Tungunesbæinn til varðveislu og er bærinn einn af lykilgripum safnsins. Nú á undanförnum árum hefur safnið staðið fyrir endurbótum á bænum og er búið að setja upp framhlið með torfhleðslu útliti. Einnig er á áætlun að setja upp litla sýningu um sögu Tungunes bæjarins og síðustu ábúendur hans.“
Þá er bara að kíkja í myndaalbúmin og athuga hvort myndir af þeim feðgum Stefáni Þór og föður hans Theodór Hallgrímssyni. Hægt er að hafa samband við safnið á Facebook eða Sólveigu H. Benjamínsdóttur á netfangið solveig@hunathing.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.