Veiruskita í kúm í Eyjafirði
Sagt er frá því á heimasíðu MAST að veiruskita í kúm hefur geisað á Eyjafjarðarsvæðinu að undanförnu og virðist nú vera farin að stinga sér niður í Þingeyjarsýslum og á Héraði. Segir í tilkynningu stofnunarinnar að mikilvægt sé að bændur hugi vel að sóttvörnum til að forðast að fá smitið inn á búin.
Veiruskita er bráðsmitandi sjúkdómur í nautgripum en ekki hefur tekist að greina orsök sjúkdómsins en honum svipar mjög til sjúkdóms sem kallast á ensku „winter dysentery“. Talið er að orsök þess sjúkdóms sé nautgripakórónaveira en það hefur þó ekki verið staðfest.
Á mast.is segir að sjúkdómurinn smitist með saur og slími frá nösum. „Smit berst mjög auðveldlega með fólki, dýrum og ýmsum hlutum, s.s. múlum, fatnaði, tækjum, bifreiðum o.s.frv. Oftast smitast allir næmir gripir á búinu á nokkrum dögum og sjúkdómurinn gengur yfir á einni til tveimur vikum. Sjúkdómurinn er ekki hættulegur fólki og hefur ekki áhrif á neysluhæfni afurða.
Afleiðingar sjúkdómsins geta verið alvarlegar og langvarandi þar sem sjúkdómurinn veikir ónæmiskerfi kúnna þannig að þær verða viðkvæmari fyrir öðrum sjúkdómum, m.a. júgurbólgu og öðrum bakteríusýkingum. Sýkingin eykur hættu á doða hjá kúm sem komnar eru nálægt burði þegar þær veikjast. Mikilvægt er að kýrnar hafi góðan aðgang að drykkjarvatni og salti. Kýr sem veikjast falla verulega í nyt á meðan þær eru veikar og komast sjaldan í fulla nyt aftur á yfirstandandi mjaltaskeiði og veikin hefur einnig neikvæð áhrif á frjósemi þeirra.“
Sjá nánar á heimasíðu Matvælastofnunar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.