Veðursjá á Skagaheiði sem greinir lægðargang og úrkomu úr norðri
Í september á liðnu ári var hafist handa við að reisa sérkennilegt mannvirki á Selfelli á Skagaheiði, svokallaða veðursjá (e. weather radar) sem bætist við net veðurstöðva á landinu og auka áreiðanleika veðurspár. Að sögn Óðins Þórarinssonar, sérfræðings á athugana- og upplýsingatæknisviði Veðurstofunnar, er radarinn á Skaga, auk annars sem fyrirhugað er að setja upp á Melrakkasléttu, hugsaðir til þess að greina betur lægðargang og úrkomu sem koma að norðan og geta valdið bæði snjóflóðum og skriðuföllum.
Veðursjáin er þegar komin í gagnið og segir Óðinn hana hafa mikla þýðingu fyrir veðurathuganir og þá sérstaklega þau „veður“ sem koma að norðan. Segir hann að á meðfylgjandi skjáskoti (mynd ?) sem tekin er af vef Veðurstofunnar síðasta föstudagsmorgun, megi greinilega sjá úrkomu sem laumar sér úr norðrinu. Með þær tvær veðursjár sem áður var treyst á, á Miðnesheiði og Fljótsdalsheiði, sé ljóst að greinaleikin á veðrinu úti fyrir norðurlandi hefði verið umtalsvert verri.
„Við höfum verið með veðursjár í rekstri á Miðnesheiði í rúm 30 ár en í kjölfar þess að herinn kvaddi Keflavíkurflugvöll var veðursjá sem þeir skildu eftir keypt af þeim og sett upp á Fljótsdalsheiði þar sem heitir Miðfell. Við köllum hann reyndar Egilsstaðaradar en hann hefur verið í rekstri í rúm tíu ár. Hann, ásamt tveimur færanlegum veðursjám, voru sérstaklega hugsaðir til þess að fylgjast með gosmekki í eldgosum og eru staðsettir við okkar virkustu eldstöðvar, en nýtast vel til veðurathugana. Önnur færanlega veðursjáin er í Gunnarsholti til vöktunar á Heklu, Eyjafjallajökli og Kötlu en hin á Kirkjubæjarklaustri og sér einnig til Kötlu, Bárðarbungu og Grímsvatna. Veðursjáin á Fljótsdalsheiði sér til sömu fjalla; Grímsvatna og Bárðarbungu auk þess að horfa til Öskju þannig að við höfum með þessum færanlegu og föstu radörum nokkuð góða sýn á okkar virkustu eldfjöll, en getum jafnframt flutt þær færanlegu ef önnur eldfjöll bæra á sér.“
Í útskýringu Óðins kemur fram að veðursjárnar senda frá sér geisla sem getur lægstur verið í láréttu plani og vegna lögun jarðarinnar hækki geislinn eftir því sem fjær dregur og tekur dæmi af því að þegar Miðnesheiðarveðursjáin, sem horfði á gosið í Eyjafjallajökli og var þá ein virk á þeim tíma, sást gosmökkurinn ekki fyrr en komið var í rúmlega þriggja km hæð.
„Til þess eru færanlegu veðursjárnar og með veðursjánni á Miðfelli sést betur til eldfjalla á austanverðu landinu og mögulegs gosmakkar áður en hann nær þessari hæð.“
Þáttur í ofanflóða- og snjóflóðaeftirliti
Óðinn segir að þetta verkefni Veðurstofunnar sé unnið í samstarfi með alþjóðafluginu sem hafi í rauninni kostað kaupin á báðum færanlegu veðursjánum og uppsetningunni á veðursjánni á Miðfelli. Veðursjárnar komi enda fluginu til góða en líkt og með dæmið um gosmökkinn hér að framan sást hann ekki í ákveðinni fjarlægð með einni veðursjá fyrr en í mikilli hæð.
„Nú er verið að byggja upp kerfi sem samanstendur af þessum veðursjám sem taldar eru upp hér að framan. Reyndar erum við að skipta út veðursjánni á Fljótdalsheiðinni því þó að hann hafi góða sýn á eldfjöllin þá sér hann ekki nógu vel út á haf í suðaustur. Þess vegna er hún færð, eða byggð upp á nýtt á Bjólfi fyrir ofan Seyðisfjörð. Sú veðursjá átti reyndar að verða á undan í röðinni en vegna aðstæðna og veðurs í haust varð Skagatá framar í röðinni og er sú veðursjá er þegar kominn í gagnið. Hún hefur mikla þýðingu fyrir veðurathuganir og þá sérstaklega þau veður sem koma að norðan,“ segir Óðinn og vísar í meðfylgjandi skjáskot af vef Veðurstofunnar sem tekið var sl. föstudagsmorgun þegar hvassviðri og asahláka gekk yfir landið. Áður, þegar aðeins voru tvær veðursjár á Miðnesheiði og Fljótsdalsheiði, segir Óðinn ljóst að greinaleikin á veðrinu úti fyrir norðurlandi hefði verið umtalsvert verri. Myndin sýnir úrkomu, en á myndum sem aðgengilegar eru innanhúss á Veðurstofunni er t.d. einnig hægt að sjá vindinn á sambærilegum myndum.
Óðinn segir að því miður verði bið á því að Bjólfur verði virkur og frestast það verkefni fram á vorið. En þessar tvær veðursjár á Selfelli og Bjólfi ásamt þeirri á Miðnesheiði við Keflavíkurflugvöll, breytingu úr færanlegri í fasta veðursjá á Kirkjubæjarklaustri og síðan veðursjám sem til stendur að setja upp á Melrakkasléttu og á Vestfjörðum mun gefa þá þekju sem Óðinn segir nauðsynlega. „Með þessum veðursjám höfum við góða þekju yfir landinu og erum jafnframt að horfa út fyrir ströndina og fylgjast með lægðargangi sem kemur upp að landinu. Þar er fyrsta veðursjáin, á Miðnesheiði, í ákveðnu lykilhlutverki því að flestar lægðirnar koma upp að suðvestur horninu. En það eru líka lægðir sem berast til okkar úr norðri, fara hringinn og læðast þannig á bak við okkur en þeim fylgir oft á tíðum úrkoma sem getur valdið usla með miklum rigningarveðrum og flóðástandi. Radarinn á Skagatá og á Melrakkasléttu eru hugsaðir til þess að sjá þennan lægðargang og úrkomu sem lægðirnar eru að bera með sér upp að landi og það sama má segja með fyrirhugaða veðursjá á Vestfjörðum, hún hefur mikinn tilgang í ofanflóða- og snjóflóðaeftirliti sem Veðurstofan stendur fyrir.“
Óðinn segir þetta verkefni um uppbyggingu veðursjárkerfisins vera með allra stærstu verkefnum sem Veðurstofan hefur ráðist í m.t.t. fjárfestingar og uppbyggingu innviða. „Við höfum verið með veðursjána á Miðnesheiðinni í mjög langan tíma og hún hefur löngu sannað gildi sitt. En þetta er það mikil fjárfesting að það hefur þurft að hafa töluvert fyrir því að koma þessu verkefni á koppinn. Við vonumst við til þess að fyrirhuguð uppbyggingin geti gengið eftir á næstu árum, alla vega að fyrir 2030 og þá verði allar þessar veðursjár komnar upp sem ég hef sagt frá, á Skagatá sem nú er virk og á Bjólfi sem vonandi kemst í gagnið á miðju næsta ári. Við höfum einnig endurnýjað allan búnað á Miðnesheiði þannig að þetta er heljarinnar áfangi sem er búinn nú þegar en síðan þurfum við að ráðast í þessar uppsetningar bæði á Melrakkasléttunni, fyrir vestan og svo á Kirkjubæjarklaustri.
Húni.is segir frá því í desember að bygging mannvirkisins hafi verið í höndum Helga Gunnarssonar, verktaka á Skagaströnd, og hefur eftir Ólafi Bernódussyni, í pistli hans í Morgunblaðinu, að hafi verið síðasta „stóra“ verkefni. Helgi hefur nú látið af störfum eftir 42 ára þjónustu við íbúa og nágrannabyggðir sem húsasmíðameistari en hann hefur á þessum árum séð um allar meiriháttar byggingarframkvæmdir á Skagaströnd, t.d. kirkjuna og íþróttahúsið. Fram kemur einnig að tveir ungir og atorkusamir menn, Gísli Reynisson og Ragnar Björnsson, hafi keypt fyrirtæki Helga og tekið við keflinu úr hans höndum.
Meðfylgjandi myndir tóku Gunnar Rögnvaldsson, þegar fyrsta steypuvinnan var í gangi og Jói Þóraðar, þegar kúlan var hífð á bygginguna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.