Vatnsnesvegur kominn í hópfjármögnun á Karolina Fund

Vatnsnesvegur með sínar óteljandi holur. Mynd af hunathing.is.
Vatnsnesvegur með sínar óteljandi holur. Mynd af hunathing.is.

Sveitarstjórnar Húnaþings vestra samþykkti á síðasta fundi sínum að hefja hópfjármögnun á Karolina Fund vegna framkvæmda við Vatnsnesveg, nr. 711 með það að markmiði að hægt verði að flýta framkvæmdum sem áætlað er að hefjist ekki fyrr en á þriðja tímabili áætlunarinnar, þ.e. á árunum 2030-2034. Ýmislegt í boði fyrir þá sem taka þátt í verkefninu.

Á heimasíðu sveitarfélagsins kemur fram að verðið á veginum sé áætlað 3,5 milljarðar króna en til að hægt sé að flýta framkvæmdum við veginn og koma hönnun strax af stað er lagt upp með að safna 100.000.000 kr. sem er einungis brot af kostnaði vegarins, segir í bókun sveitarstjórnarinnar sem telur upphæðina nægja til að hefja hönnun strax. Hægt er að leggja til sjö mishá framlög, allt frá 30 – 6660 evrur og í staðinn fær stuðningsaðili ýmis tilboð m.a. steinvölu merkta viðkomandi sem lagður verðu í veginn, heimboð í pönnsur hjá Guðrúnu Ósk á Sauðadalsá, leiðsögn um Vatnsnesveginn með 1. varamanni Framsóknar eða jafnvel að opna veginn persónulega með samgönguráðherra við opnun, en þá þarf viðkomandi að leggja til hæstu upphæð sem reiknast hátt í eina milljón krónur.

Í bókun sveitarstjórnar segir:
„Undanfarin ár hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra lagt áherslu á að framkvæmdum við Vatnsnesveg verði flýtt vegna mjög slæms ástands vegarins, sem hefur veruleg áhrif á lífsgæði þeirra sem búa á Vatnsnesi. Verulega aukin umferð ferðamanna hefur einnig haft áhrif á fyrrnefnt ástand og slys á veginum of tíð.

Vatnsnesvegur er kominn inn á samgönguáætlun en ekki er gert ráð fyrir að framkvæmdir við hann hefjist fyrr en á þriðja tímabili áætlunarinnar, þ.e. á árunum 2030-2034, sem er óásættanlegt fyrir íbúa Húnaþings vestra.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra leggur mikla áherslu á að Vatnsnesvegur komist framar á samgönguáætlun, hönnun vegarins fari strax af stað og framkvæmdum við hann verði flýtt. Sveitarstjórn gerir sér jafnframt grein fyrir því að til að þetta sé hægt þarf aukið fjármagn í málaflokkinn. Því hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra ákveðið að leggja ríkisvaldinu lið og hefja hópfjármögnun til að hægt sé að flýta framkvæmdum við Vatnsnesveginn og að þær hefjist fyrr en gert er ráð fyrir í samgönguáætlun.

Á samgönguáætlun er áætlaður kostnaður við veginn 3,5 milljarðar króna en heildarlengd vegarins er 70 km.

Til að hægt sé að flýta framkvæmdum við veginn og koma hönnun strax af stað er lagt upp með að safna 100.000.000 kr. sem er einungis brot af kostnaði vegarins en hins vegar nægjanlegt til að hefja hönnun strax.

Þegar markmiði söfnunar er náð mun upphæðinni verða komið til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins með þeim formerkjum að hún verði nýtt til uppbyggingar Vatnsnesvegar númer 711."

Hægt er að styðja við verkefnið á slóðinni: https://www.karolinafund.com/project/view/3578

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir