Vatnsnesvegur :: Erindi umboðsmanns barna tekið til umfjöllunar
Í kjölfar ábendinga um ástand Vatnsnesvegar, sem þjónar meðal annars skólaakstri, sendi Salvör Nordal, umboðsmaður barna, þann 24. ágúst, bréf til Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra, þar sem meðal annars var bent á mikilvægi þess að stjórnvöld forgangsraði fjármagni til verkefna sem varða réttindi og hagsmuni barna með beinum hætti. Er ráðherra hvattur til að „bregðast við því ófremdarástandi sem myndast hefur á Vatnsnesvegi og standa við fyrirheit um uppbyggingu öruggra og barnvænna samgönguinnviða um land allt.
Eins og margoft hefur komið fram í fjölmiðlum landsins hefur bágt ástand Vatnsnesvegar valdið vanlíðan hjá nemendum grunnskóla héraðsins sem um hann fara nær daglega með skólabíl. Í bréfi umboðsmanns má lesa að brýnt sé að hafa í huga að skólaakstur þjóni þeim tilgangi að tryggja öllum börnum jafnan aðgang að menntun, óháð búsetu, en sveitarfélög eiga að skipuleggja skólaakstur í samræmi við þarfir nemenda með hliðsjón af öryggi þeirra, velferð og umhverfisaðstæðum. „Til þess að sveitarfélög geti uppfyllt þær skyldur verða vegir þar sem skólaakstur fer fram að vera í viðunandi ásigkomulagi, með tilliti til öryggis og líðan barna,“ segir meðal annars í bréfinu.
Við eftirgrennslan um viðbrögð við bréfinu til innviðaráðherra segir Salvör að svar hafi borist þann 7. sept. og þar greint frá því að erindið verði tekið til umfjöllunar við undirbúning tillögu að nýrri samgönguáætlun, m.a. á vettvangi samgönguráðs.
Vegabætur hafnar
„Vandamálið er fyrst og fremst alltof mikil umferð ferðamanna, sérstaklega í svona vætutíð eins og var í sumar,“ segir Birgir Þór Þorbjörnsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Hvammstanga, um ástand vegarins. Hann segir að ekki hafi orðið mikil breyting á þjónustu af hálfu Vegagerðarinnar þar sem haldið sé áfram að gera eins og hægt er til að viðhalda veginum. „Við berum efni í veginn og heflum þegar þörf er á og færi gefst, þó er ekki gott að eiga við það þegar rignir eins og gert hefur í sumar,“ segir hann.
Mjög hefur verið kallað eftir vegabótum á Vatnsnesi undanfarin ár og vakti það því mikla athygli snemma árs að ekkert tilboð barst í vegabætur þar sem byggja átti 17 metra langa brú yfir Vesturhópshólaá og nýbyggingu vegar á um 1,0 kílómetra kafla og endurbyggingu á um 1,2 km löngum kafla milli Vesturhópshóla og Þorfinnsstaða. Nú sér fyrir endann á þeirri bið þar sem ákveðið var að taka brúarsmíðina úr útboðinu og bjóða vegaframkvæmdina út sér.
„Boðið var út aftur í vor og bárust þrjú tilboð. Búið er að semja og verktakinn er byrjaður á vegframkvæmdunum. Brúarflokkurinn sem gerður er út héðan frá Hvammstanga sér um brúarsmíðina og eru þeir að undirbúa sig fyrir það, hefjast handa væntanlega á næstu dögum,“ sagði Birgir Þór er Feykir hafði samband fyrir helgi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.