Varði þremur dögum í að hreinsa upp flugeldalíkin á Króknum
Grétar Freyr Pétursson, 11 ára Sauðkrækingur, hefur gert sér að leik að tína upp flugeldrusl sem verður til eftir gamlársfjörið í bænum. Telur hann að tertulíkin séu yfir 200 sem hann safnaði saman og fór með í Flokku.
Grétar segist hafa gaman af því að safna þessu saman og ver miklum tíma í þessa þörfu vinnu. Hann reynir að fara um allan bæinn og dregur snjóþotuna eftir sér í neðri bænum en í efri hverfunum safnar hann ruslinu samar í hauga og fær pabba sinn til að hjálpa sér að koma þeim heim á kerru og raðar upp. Síðan tínir hann sjálfur ruslið upp á kerru áður en haldið er með góssið í endurvinnsluna.
Þótt Grétar sé ekki gamall hefur hann gert þetta í mörg ár og án þess að margir taki eftir því hve mikil vinna liggur að baki en hann var kominn á stjá um hádegið á nýársdag og alls tók hann þrjá daga í verkið. „Það er fínt að þrífa bæinn og stundum þarf ég að róa mig aðeins niður og taka frí frá fjölskyldunni, losa mig aðeins í burtu,“ útskýrir Grétar þegar hann er spurður út í það af hverju hann er að þessu. Grétar, sem er í 6. bekk, hefur mikið að gera, æfir fótbolta, badminton og golf og reynir að sinna hestamennsku á sumrin. Þá er hann í tónlistarskóla að læra á píanó og svo er þónokkur vinna að vera í skóla.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.