Vanda kjörin formaður Knattspyrnusambands Íslands fyrst kvenna
Skagfirðingurinn Vanda Sigurgeirsdóttir var kosin nýr formaður KSÍ á aukaþingi sambandsins sem fór fram á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands segir að Vanda sé fyrsta konan sem er kosin formaður KSÍ og verður hún fyrst kvenna til þess að taka við embætti formanns í aðildarsambandi UEFA. Hún verður tíundi formaður KSÍ og tekur við af Guðna Bergssyni sem sagði nýverið af sér en ljóst er að verkefnin fram undan fyrir formann KSÍ eru mörg hver afar brýn og erfið.
Ný stjórn var sömuleiðis kjörin á fundinum en eins og flestir vita sagði fyrri stjórn af sér. Ný stjórn starfar fram að 76. ársþingi KSÍ sem fer fram í febrúar 2022. Hér að neðan má sjá nafnalista nýrrar stjórnar. Nýja stjórn skipa: Ásgrímur Helgi Einarsson, Borghildur Sigurðardóttir, Guðlaug Helga Sigurðardóttir, Helga Helgadóttir, Ingi Sigurðsson, Kolbeinn Kristinsson, Ólafur Hlynur Steingrímsson, Ómar Bragi Stefánsson, Magnús Björn Ásgrímsson, Margrét Ákadóttir, Sigfús Ásgeir Kárason, Unnar Stefán Sigurðsson, Trausti Hjaltason, Valgeir Sigurðsson, Vanda Sigurgeirsdóttir og Þóroddur Hjaltalín.
Króksarinn Ómar Bragi er einn fjögurra landshlutafulltrúa í stjórn og situr að sjálfsögðu fyrir hönd Norðurlands. Vanda, sem er frá Sauðárkróki, er með meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði og hefur starfað sem lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þá hefur hún allan sinn starfsferil starfað með börnum og fullorðnum að eineltis- og samskiptamálum.
Feykir hafði áður sagt frá því að Vanda yrði sjálfkjörin í formannsembættið þar sem hún gaf ein kost á sér. Lokaorð ræðu hennar á þinginu voru eftirfarandi: „Ef þið eruð með einhverjar efasemdir um mig þá skora ég á ykkur að gefa mér séns. Við erum stolt af því að tilheyra hreyfingu sem ætlar að taka sig á fordæma allt ofbeldi,"
Ræðu Vöndu á þingi KSÍ má lesa á knattspyrnuvefnum góða, Fótbolti.net >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.