Væri til í prívat stofutónleika á herragarði í Englandi / GÍSLI MAGNA

Gísli Magna. AÐSEND MYND
Gísli Magna. AÐSEND MYND

Að þessu sinni fékk Feykir eðalbarkann Gísla Magna (1971) til að svara Tón-lystinni. Hann býr í Reykjavík en ólst upp á Patreksfirði til fimm ára aldurs, skellti sér þá í Breiðholtið í Reykjavík. Gísli bjó svo á Króknum í rúm tvö ár upp úr 1990. „Stjúpi minn heitinn, Jóhann Svavarsson, var rafveitustjóri,“ segir Gísli.

Hljóðfærin hans Gísla eru röddin og svo spilar hann á píanó. Spurður út í helstu afrekin á tónlistarsviðinu segir hann: „Heill hellingur af bakraddasöng, söngleikjum, þrjár ferðir í Júróvision og nú síðast platan Nóttin og þú sem kom út í byrjun desember 2020.“ Á plötunni hefur hann tekið saman valin lög úr lagasafni afa síns, Steingríms M. Sigfússonar, og fært þau í nýjan búning. Sumarið 2020 gafst svo færi milli covid-bylgja og hélt Gísli ásamt hljómsveit tónleika í Reykjavík og á Patreksfirði, þar sem flest lögin voru sett saman.

Hvaða lag varstu að hlusta á? Var að hlusta á lagið Your Heart is as Black as Night með Melodi Gardot. Nýlega kom út annað lag með henni og Sting sem hefur heyrst reglulega í útvarpinu, flottur tónlistarmaður þarna á ferð.

Uppáhalds tónlistartímabil? Vegna starfs míns hlusta ég á alls konar tónlist frá ólíkum tímabilum. En ef ég þarf hvíld fyrir hausinn dett ég oft í 80's og 90's play-lista á Spotify.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Við eigum svo mikið af góðu tónlistarfólki og margir að stíga sín fyrstu skref í útgáfu. Er mjög spenntur fyrir því sem Tómas Welding er að gera.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Inni í herbergjum okkar bræðra var það allt frá Eurythmics og Sade yfir í AC/DC á meðan að pabbi spilaði 50's slagara á píanóið inni í stofu.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Stórt er spurt og svarið er: Ég man það ekki! Grunar að það hafi verið safnplata eins og Sprengiefni eða eitthvað álíka. Þetta voru play-listar síns tíma.

Hvaða græjur varstu þá með? Stereógræjur foreldranna.


Hvað var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Ég ætla að skjóta á

Ég skal mála allan heiminn, elsku mamma!

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Ég læt ekki lög rústa deginum fyrir mér. Það er alltaf hægt að slökkva eða skipta um rás.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Þar sem ég var að gefa út plötu myndi ég sennilega ekki geta haldið aftur af mér og skellt henni á fóninn.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Ég kann vel að meta fuglasönginn í trjánum í kringum húsið mitt.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Ég væri til í prívat-stofutónleika með manninum mínum og hundinum, Gutta, á herragarði í Englandi. Tónlistarfólkið væri Phil Collins, Sting, Sade, Annie Lennox og einhver óuppgötvaður snillingur.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Ég roðna við tilhugsunina en ég var með kassettuna True Blue með Madonnu í bílnum. Spilaði hana í hengla.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Mig hefur dreymt um að vera tónlistarmaður sem lætur lífið ekki halda aftur af sér.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út (eða sú sem skiptir þig mestu máli)? Fyrsta platan sem hafði veruleg áhrif á mig var heitir The Seeds of love með hljómsveitinni Tears for Fears.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Þessa dagana eru það:


Je te laisserai des mots – Patrick Watson
Runner up – Blankiflur

Family man – Daði

Astronaut – Red Barnett

Dans – Gísli Magna (obbossí!)
Afterglow – Ásgeir Trausti

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir