Úrslit Bikarleikja hjá yngri flokkum Tindastóls um helgina
Á laugardaginn, 15. október, áttu að fara fram tveir bikar leikir í Síkinu hjá yngri flokkum Tindastóls, 10.fl. drengja (Tindastóll - Snæfell) og 12.fl. karla (Tindastóll Grindavík).
10. fl. drengja átti leik á móti Snæfell en sökum veðurs treystu þeir sér ekki til að koma og var þá leikurinn flautaður af og Tindastól dæmdur sigur, skráð úrslit voru 20-0 og þeir því komnir áfram.
Hjá 12. fl. drengja var annað upp á teningnum og mætti Grindavík til leiks og var hörkuleikur í Síkinu. Tindastóll byrjaði betur og eftir fimm mín. leik var staðan 10-4 fyrir Tindastól og Grindavík átti ekki nein svör við sóknar- og varnarleik okkar manna og staðan eftir fyrsta leikhluta 25-8. Í öðrum leikhluta virtist sem boltinn vildi ekki ofan í körfuna hjá báðum liðum en í seinni hluta leikhlutans bættist aðeins í stigaskorið og staðan 37-20 fyrir Tindastól. Þriðji leikhluti reyndist erfiðastur fyrir okkar menn og þegar sjö mín. voru búnar byrjuðu Grindvíkingar að saxa vel á forskotið og staðan 51-43 eftir þrjá leikhluta. Í fjórða leikhluta halda Grindvíkingar áfram að gera góða hluti og staðan 63-58 fyrir Stólunum þegar aðeins þrjár mínútur eru eftir. Þá náðu Stólarnir að rétta hausinn við og náðu að halda striki til leiksloka og endaði leikurinn 67-61. Stólarnir eru því komnir í átta liða úrslit í bikarkeppninni í sínum flokki.
Á sunnudeginum, 16. október, áttu einnig að fara fram tveir bikar leikir hjá Tindastól, annar í Síkinu (12.fl. stúlkna) og hinn á Selfossi (11. fl. drengja).
12. fl. stúlkna, í sameiginlegu liði Kormáks/Tindastóls, átti leik við Þór/Hamar í Síkinu en stelpurnar okkar náðu ekki að smala í lið í tæka tíð og leikurinn því flautaður af, skráð úrslit voru 0-20 fyrir Þór/Hamar, og þær því dottnar út úr bikarkeppninni.
11. fl. drengja spóluðu á Selfoss og því miður voru niðurstöður leiksins ekki okkur í vil, lokastaðan 81-110 fyrir Selfoss og þeir því einnig dottnir út úr bikarkeppninni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.