Uppbygging 2. áfanga Sundlaugar Sauðárkróks hafin
Framkvæmdir eru að hefjast við uppbyggingu annars áfanga Sundlaugar Sauðárkróks byggt verður við núverandi sundlaug og komið fyrir setlaugum og rennibrautum ásamt því að hreinsi- og laugarkerfi verður endurnýjað. Vegna framkvæmda verður laugin lokuð í dag en stefnt er að því að opna aftur á morgun laugardaginn 12. mars.
Á heimasíðu sveitarfélagsins má sjá að gert er ráð fyrir því að laugarsvæðið stækki til suðurs með setlaugum, kennslulaug og rennibrautum. Kennslulaugin verður 7,5 m x 7,5 m og mun nýtast í sundkennslu fyrir börn á grunnskólaaldri. Setlaugar verða gerðar í kringum kennslulaugina ásamt lendingarsvæði fyrir rennibrautir. Byggður verður varanlegur kaldur pottur milli heitu pottanna tveggja sem nú eru við sundlaugina en notast hefur verið við plastkar hingað til. Byggðar verða þrjár rennibrautir sem henta mismunandi aldurshópum. Sú stærsta verður um 11 metra há og verður turn hennar klæddur gleri, með led lýsingu ásamt því að vera upphitaður. Sundlaugin sjálf mun fá upplyftingu og verður hún flísalögð ásamt því að laugarkerfi og hreinsikerfi verði endurnýjuð.
Tölvugerð mynd af endurbótunum.
Mynd af skagafjordur.is.
Í fundargerð bygginganefndar sundlaugarinnar frá því í fyrradag kemur fram að kynntar hafi verið breytingar á laugarkari frá fyrri teikningum og eru gerðar varðandi aðgengi fatlaðs fólks og dýpi í lendingarlaug rennibrauta. Einnig var ný útfærsla á köldum potti kynnt. Steinn Leó Sveinsson, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs, segir breytingarnar óverulegar en þótti samt eðlilegt að þær væru kynntar fyrir byggingarnefnd. „Um er að ræða útfærslubreytingu á köldum potti, tilfærslu á tröppum niður í laugarkar og dýpi á lendingarsvæði í sundlauginni,“ segir hann.
Um miðjan nóvember var sagt frá því að tvö tilboð hafi borist í verkið, annars vegar frá Friðriki Jónssyni ehf. sem bauð 214.981.032 kr. (109,00%) og hins vegar frá Uppsteypu ehf. sem bauð 189.053.555 kr. (95,8%) og var því tilboði tekið. Kostnaðaráætlun var 197.243.581 kr.
HÉR er hægt að sjá fleiri teikningar af fyrirhuguðum mannvirkjum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.