Ungmenni í Húnaþingi og Finnlandi í skemmtilegu samstarfi
Húnaþing vestra og Pyhtää í Finnlandi eiga í skemmtilegu samstarfi, Back to the roots, sem er tveggja ára Erasmusverkefni milli sveitarfélaganna. Snýst það um að það að hvetja ungt fólk til að taka þátt í samfélagslegum umræðum og ákvarðanatöku. „Það heitir Back to the roots, eða Leiðin að rótunum, þar sem við viljum styrkja rætur ungs fólks við sitt samfélag. Sveitarfélögin okkar eru frekar lík, bæði lítil, út á landi og við sjó,“ segir í tilkynningu frá ungmennunum á Hvammstanga.
Jessica Aquino, verkefnastjóri á Hvammstanga, hefur unnið að verkefninu með Hönnu frá Finnlandi frá því þær kynntust á ráðstefnu fyrir nokkrum árum og nú hefur þetta verkefni orðið að veruleika.
„Við kynntumst þessu verkefni þegar það var kynnt fyrir ungmennaráði í Húnaþings vestra og okkur var boðið að taka þátt í því. Sem við vildum náttúrulega gera,“ segja ungmennin. Jessica er einnig stofnandi Húnaklúbbsins en nokkur ungmenni úr þeim klúbbi eru líka þátttakendur í verkefninu.
„Við fengum styrk frá Erasmus+ til þess að framkvæma þetta verkefni. Það sem við gerum er að heimsækja hvert annað, við förum tvisvar til Finnlands og þau koma tvisvar til Íslands. Í október 2021 fórum við í eina viku til Pyhtää og kynnumst samfélagi þeirra, kíktum í skóla, félagsmiðstöð, hittum ungmennaráðið o.fl. Við kynntumst líka aðeins ungmennaráðinu í Helsinki og skoðuðum félagsmiðstöð þar. Í apríl 2022 er svo finnski hópurinn að koma til okkar og við ætlum að sýna þeim okkar samfélag og einnig nokkra staði í Reykjavík.
Með þessum heimsóknum kynnumst við okkar litlu samfélögum betur og sjáum bæði það sem er líkt með þeim en einnig það sem er ólíkt. Markmiðið er að efla ungt fólk í sínum heimabæjum og með því að kynnast samfélaginu okkar, og einnig þeirra í Finnlandi, getum við reynt að finna leiðir til að ungt fólk fái tækifæri til að taka meiri þátt og hafi meiri áhrif á sitt samfélag“.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.