Undirbúningur sameininga hafinn

Akrahreppur og Svf. Skagafjörður sameinuðust sem kunnugt er í kosningum þann 19. febrúar síðastliðinn en síðan hefur lítil farið fyrir umræðu um framhaldið í væntanlegri sameiningu. Feykir hafði samband við Sigfús Inga Sigfússon, sveitarstjóra Svf. Skagafjarðar, og spurði hann hvað væri framundan. „Næstu skref eru að bæði sveitarfélög skipa 2-3 einstaklinga hvort um sig í undirbúningsstjórn. Sú stjórn hefur nokkur verkefni, m.a. að semja samþykkt um stjórn og fundarsköp hinnar nýju sveitarstjórnar sem mun gilda fyrir nýtt sveitarfélag þar til því hefur verið sett sérstök samþykkt,“ segir Sigfús Ingi.

Hann segir að stjórnin skuli einnig taka ákvarðanir um fjárhagsmálefni hins nýja sveitarfélags, taka saman yfirlit yfir allar samþykktir og reglugerðir sem gilda í þeim sveitarfélögum sem sameinuð hafa verið og hefja vinnu við endurskoðun þeirra og samræmingu.

Sigfús Ingi segir að undirbúningu sé þegar hafinn og reiknar með því að stjórnin verði skipuð á sveitarstjórnarfundi og hreppsnefndarfundi í næstu viku. Kjördagur er svo 14. maí og gildistaka sameiningar 29. maí. Ný sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags tekur við stjórn þann dag.

Vestan Þverárfjalls, þar sem Blönduós og Húnavatnshreppur sameinuðust, hefur sveitarstjórn Blönduósbæjar ákveðið að fulltrúarnir þrír sem hún skipaði í samstarfsnefnd um sameiningu við Húnavatnshrepps verði jafnframt skipaðir í undirbúningsstjórn að stofnun nýs sveitarfélags en þau eru Arnrún Bára Finnsdóttir, Guðmundur Haukur Jakobsson og Jón Örn Stefánsson. Fram kemur í frétt Húnahornsins að sveitarstjóri hefur seturétt með málfrelsi og tillögurétt á fundum undirbúningsstjórnar. Hægt er að lesa nánar um þetta á Húnahorninu >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir