Um 500 manns mættu á Stórhól í afmæli Beint frá býli

Ekki væsti um sýnendur í gömlu hlöðunni á Stórhóli á sunnudaginn. MYNDIR: SIGRÚN INDRIÐADÓTTIR / RÚNALIST
Ekki væsti um sýnendur í gömlu hlöðunni á Stórhóli á sunnudaginn. MYNDIR: SIGRÚN INDRIÐADÓTTIR / RÚNALIST

Nú á sunnudaginn var haldin 15 ára afmælishátíð Beint frá býli á sex stöðum á landinu. Hér á Norðurlandi vestra var hátíðin haldin á Stórhóli í gamla góða Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Ellefu framleiðendur mættu þar til leiks frá Norðurlandi vestra sem eru aðilar að Beint frá býli til að kynna og selja afurðir sínar. Kvenfélag Lýtingsstaðahrepps var með bakkelsi á svæðinu og ferðaþjónustan á Lýtingsstöðum teymdi undir börnum.

Samkvæmt frétt á vef SSNV gekk hátíðin mjög vel og reiknað er með að um 500 manns hafi heimsótt Stórhól, fengið afmælisköku og kaffi í boði Beint frá býli og kynnt sér hvað framleiðendur á Norðurlandi vestra hafa upp á að bjóða.Sigrún Indriðadóttir á Stórhóli sagði Feyki að bæði gestir og þátttakendur hafi verið hæstánægðir, enda margt spennandi á boðstólum.

Haldið var upp á afmælið á sex stöðum á landinu. Fyrir hátíðunum stóðu Beint frá býli, Landshlutasamtökin og Samtök smáframleiðanda matvæla. Beint frá býli, félag heimavinnsluaðila (BFB) er félag bænda sem stunda eða hyggjast stunda sölu afurða beint frá býli bóndans á Íslandi. Á heimasíðu Beint frá býli segir að tilgangur félagsins sé að hvetja til heimavinnslu og sölu beint frá bændum. Einnig að vinna að hagsmunum þeirra bænda sem stunda eða hyggjast stunda hverskonar framleiðslu og sölu á heimaunnum afurðum.

Myndirnra sem hér fylgja eru birtar með góðfúslegu leyfi Sigrúnar á Stórhóli.

Sjá nánar:
https://www.beintfrabyli.is
https://www.facebook.com/RunalistGalleri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir