Tyrfingsstaðaverkefnið fær styrk
Vaxtarsamningur Norðurlands vestra hefur veitt Tyrfingsstaðaverkefninu styrk að upphæð 1,2 millj. kr. til að kynna verkefnið, skrá aðferðir og veita gestum upplýsingar. Tyrfingsstaðaverkefnið er samstarfsverkefni Fornverkaskólans, Byggðasafns Skagfirðinga, ábúenda á Tyrfingsstöðum þeirra Kristínar Jóhannsdóttur og Sigurðar M. Björnssonar, Fornverks ehf. og Braga Skúlasonar húsasmíðameistara.
Samstarf þessara aðila hófst í lok árs 2006 þegar Kristín Jóhannsdóttir eigandi Tyrfingsstaða og Sigríður Sigurðardóttir safnstjóri Byggðasafn Skagfirðinga undirrituðu samkomulag um að Byggðasafnið fengi að nota gömlu húsin á Tyrfingsstöðum sem vettvang fyrir námskeið í gömlu byggingahandverki. Með undirritun samningsins var lagður hornsteinn að mikilvægu samstarfi um varðveislu íslensk byggingahandverks og jafnframt að uppbyggingu húsa á Tyrfingsstöðum þar sem varðveist hefur fágæt minjaheild; bæjarhús, gripa- og fjárhús. Varðveisla handverksins liggur bæði í þeim húsum sem hefur og verður gert við, sem og hjá þeim nemendum sem ljúka námskeiðum á Tyrfingsstöðum. Það undirstrikar mikilvægi menningarminja á Tyrfingsstöðum og ekki síður starfsemi Fornverkaskólans að Þjóðminjasafn Íslands hefur valið Tyrfingsstaði í hóp þeirra torfhúsa sem tilnefndar verða á Heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).
Styrkurinn verður nýttur til að setja upp upplýsingaskilti, vinna kynningarmyndband og halda utan um verkefnið og skrá þannig að það vinnist sem best.
Á skilti verður fjallað um sögu bæjarins í máli og myndum auk þess sem Tyrfingsstaðaverkefninu verða gerð skil. Upplýsingarnar verða bæði á íslensku og ensku. Gamli bærinn hefur lengi laðað að sér ferðamenn sem átt hafa leið um Skagafjörð og þeim hefur fjölgar jafnt og þétt eftir að uppbygging á Tyrfingsstöðum hófst. Það er nauðsynlegt að þeim sé bent á hvað ber fyrir augu og gefa þeim upplýsingar um nauðsynlegar umgengnisreglur. Kynningarmyndbandið verður gert aðgengilegt á veraldarvefnum og það verður fáanlegt á dvd diskum. Myndbandið er hluti af kennslumyndbandi um íslenskt byggingahandverk sem unnið er að. Hluti styrksins fer einnig til kostnaðar vegna annarra kynningarmála og samskipta við nemendur og samstarfsaðila.
/Byggðasafn Skagfirðinga
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.