Tvöföldun á sundlaugargestum milli ára í júní í Skagafirði
Metaðsókn var í sundlaugar í Skagafirði í júnímánuði síðastliðnum miðað við sama tíma í fyrra, 11.500 gestir sóttu laugarnar í ár miðað við 5500 í júnímánuði í fyrra. Aukninguna má að allra mestu leyti rekja til gífurlegra vinsælda nýju sundlaugarinnar á Hofsósi en þangað komu í þessum mánuði nærri 6000 manns.
Sundlaugin í Varmahlíð og sundlaugin á Sauðárkróki eru einnig að bæta sig frá fyrra sumri. Sveitarfélagið Skagafjörður á fimm sundlaugar og sú sjötta í firðinum er á Hólum í Hjaltadal, rekin af ferðaþjónustunni þar. Ein fimm lauga sveitarfélagsins er í einkarekstri á Steinsstöðum, 12 kílómetra sunnan Varamhlíðar.
Sundlaugin í Fljótum verður opnuð nú um helgina eftir endurbætur en þar var m.a. settur niður nýr og glæsilegur heitur pottur sem heimamenn og velunnarar laugarinnar gáfu.Svo það er óhætt að fullyrða að hægt er að skella sér til sunds víða í Skagafirðinum. Þess má að lokum geta að nýja sundlaugin á Hofsósi þykir afar glæsilegt mannvirki og telja gestir þar engum blöðum um það að fletta að útsýnið er hvergi betra á Íslandi. Velkomin í sund í Skagafirði.
/Skagafjörður.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.