Tveir skrifa undir í fótboltanum hjá Stólum
Það er ekki bara körfubolti sem leikinn er á Króknum því knattspyrnudeild Tindastóls bíður í ofvæni eftir sumrinu og komu tveir nýir leikmenn í liðið í gær er þeir skrifuðu undir félagaskipti. Stólarnir leika í 2. deild ásamt ellefu öðrum liðum og er fyrsti leikur þeirra gegn Gróttu, laugardaginn 5. maí klukkan 14:00 á Vivaldivellinum.
Á stuðningsmannasíði knattspyrnudeildar kemur fram að þeir Sverrir Hrafn Friðriksson og Pétur Guðbjörn Sigurðarson hafi skrifað í gær undir félagsskipti til Tindastóls en sá fyrrnefndi er 21 árs gamall varnarmaður, en hann kemur frá Einherja. Þrátt fyrir ungan aldur á Sverrir 69 leiki fyrir Einherja og skorað í þeim sex mörk. Sverrir var fyrirliði liðsins síðasta sumar en Einherji endaði í 6. sæti 3. deildar.
Pétur Guðbjörn er 18 ára miðjumaður og kemur frá Fylki. Pétur hefur ekki enn spilað meistaraflokksleik. Á síðu stuðningsmanna segir að hann þekki til á Króknum, en mamma hans er Hanna Steinsdóttir hjá Momentum og stjúpfaðir hans er Sigurþór Jónsson, forstöðumaður upplýsingatækni- og öryggismála hjá KS. Pétur ólst upp á Sauðarkróki og spilaði fyrir yngri flokka Tindastóls.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.