Tveir Íslandsmeistaratitlar til Tindastóls í badminton
Íslandsmeistaramót unglinga í badminton fór fram á Akranesi um helgina þar sem 168 keppendur frá níu félögum öttu kappi í einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarleik í U11-U19. Í fyrsta sinn sendi badmintondeild Tindastóls keppendur á mótið, systurnar Júlíu Marín, sem spilar í U11 og Emmu Katrínu í U13 og náðu þær frábærum árangri.
Á Facebook-síðu deildarinnar segir að um útsláttarkeppni hafi verið að ræða og spilað samkvæmt reglum Alþjóðabadmintonsambandsins. Þær Júlía og Emma komust báðar í úrslit í öllum greinum og fór svo að þær Júlía Marín og Emma Katrín urðu báðar Íslandsmeistarar í tvíliðaleik í sínum flokkum og þar með fyrstu tveir Íslandsmeistaratitlar til Tindastóls í þessari vinsælu íþrótt.
Júlía Marín og Emma Katrín eru Helgadætur en faðir þeirra, Helgi Jóhannesson, er landsliðsþjálfari í badminton og aðalhvatamaður að stofnun badmintondeildar Tindastóls. Móðir stúlknanna er Króksarinn Freyja Rut Emilsdóttir.
Vel gert!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.