Tuttugasta hátíð Elds í Húnaþingi

Eldur í Húnaþingi hefst formlega á morgun með setningarhátíð við Félagsheimilið á Hvammstanga klukkan 17:30. Eftir setningarathöfnina verður alþjóðamatur í Félagsheimilinu, í boði hinna ýmsu þjóðarbrota Húnaþings vestra. Þá munu harmonikkuspilarar Húnaþings vestra sömuleiðis stíga á stokk.

Forskot verður tekið á gleðina í dag þegar unglistarmót í pílukasti fer fram en fjöldi atburða verður á dagskrá alla daga fram á sunnudag sem of langt mál er að nefna hér. Áhugasömum er bent á að kynna sér hina glæsilegu dagskrá á heimasíðu hátíðarinnar, eldurihun.is, eða á Facebooksíðu. Einnig er dagskrárblaði dreift í hús í Húnaþingi vestra í Eldsvikunni sem nálgast má HÉR.

Þetta ku vera í 20. skiptið sem hátíðin er haldin en hún hefur farið fram árlega allt frá árinu 2003. Á heimasíðu Eldsins kemur fram að fyrst um sinn hafi hátíðin verið sett upp sem unglistahátíð og þá bæði skipulögð og framkvæmd af ungi fólki í Húnaþingi vestra.

„Með tímanum fékk hátíðin á sig fjölskyldu- og bæjarhátíðarblæ og hefur dagskráin verið breytileg með ári hverju en hún ræðst oftar en ekki af áhugasviði stjórnenda. Dagskráin hefur oftar en ekki innihaldið fjölmarga tónlistarviðburði, námskeið, dansleiki, viðburði með íþróttalegu ívafi, svo eitthvað sé nefnt. Mikil áhersla hefur verið lögð á að fólk á öllum aldri geti fundið eitthvað við sitt hæfi og að sem flestir viðburðir séu gestum að kostnaðarlausu,“ segir á eldurihun.is. Þar kemur jafnframt fram að Eldur í Húnaþingi hafi mikið gildi fyrir íbúa Húnaþings vestra en hátíðin einkennist af mikilli samheldni meðal íbúanna þar sem þátttaka er lykilatriði.

„Undirbúningur hefur gengið mjög vel, felst aðallega í að setja saman dagskrá bæði heimatilbúna sem og aðkeypta, fá skemmtikrafta á helstu stórviðburði o.s.frv. og hefur það gengið framar vonum,“ segir Þórunn Ýr Elíasdóttir, ein umsjónarmanna hátíðarinnar en undirbúningsnefndin samanstendur af nokkrum íbúum Hvammstanga sem brenna fyrir því að halda góða og skemmtilega héraðshátíð.

Hún segir það einstaklega ánægjulegt hvað allt heimafólk sé jákvætt gagnvart hátíðinni, hvort sem snýr að þátttöku í viðburðum, setja saman viðburði eða annað. „Gaman að fá eldriborgarastarfið sterkt inn með okkur þetta sumarið. Þau hafa verið með sitt eigið afdrep í hinu svokallaða VSP húsi í allan vetur og þar verður dagskrá allan Eldinn á þeirra vegum. Má þar sérstaklega nefna heimsmeistaramótið i Kínaskák, boðið upp á kennslu í púkk, prjónakeppni o.fl., frábært að hafa þau með í liðinu.

Er eitthvað nýtt sem boðið er upp á í ár og er eitthvað sem má segja að sé hápunktur hátíðarinnar? „Pílumót og -námskeið er haldið í fyrsta skipti í ár sem og áður nefnd spila- og keppnisdagskrá og ekki hefur verið keppt í prjóni áður. Einnig verður sú nýbreytni að bjóða upp á messu í lok Elds og kvenfélögin bjóða svo til kökuhlaðborðs fyrir lítið fé sem rennur beint í þeirra góðu málefni. Fyrir mér eru allir punktarnir hápunktar.“

Þórunn Ýr segir það frábært að Eldur í Húnaþingi verði nú haldið í 20. sinn og alltaf með frábærlega flotta og góða dagskrá „Fullt af námskeiðum fyrir börn og fullorðna og öll námskeiðin fólki að kostnaðarlausu og má þá þakka stórfyrirtækjunum hér á svæðinu sem og Húnaþingi vestra ötulan stuðning í þágu hátíðarinnar sem gerir það kleift að halda öllum verðum í lágmarki.“

Hér fyrir neðan má svo heyra Eldslagið sem samið var fyrir hátíðina forðum daga, Unglistarlagið svokallaða. Lagið samdi Júlíus Róbertsson sem einnig gerði textann ásamt Guðjóni Valgeiri Guðjónssyni. Valdimar Halldór Gunnlaugsson syngur en um hljóðfæraleik sjá þeir Daníel Trausti Róbertsson og Júlíus Róbertsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir