Trygging hitaveituréttinda Skagafjarðarveitna
Í umræðunni Skagfirðinga á meðal er ekki óalgengt að rætt sé um framtíð Skagafjarðarveitna. Minna hefur farið fyrir því að sú umræða sem brennur á íbúum, um mögulega sölu fyrirtækisins eða framtíðartryggingu á óskertum vatnsréttindum, hafi ratað inn á sveitarstjórnarfundi.
Í ljósi fregna af því að aðrir aðilar en Skagafjarðarveitur hygðust nýta heitavatnslindir Reykjarhóls við Varmahlíð, þá taldi ég tímabært að leggja fram eftirfarandi tillögu á sveitarstjórnarfundi þann 12. febrúar sl.:
„Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkir að láta gera lögfræðilega úttekt á hitaveituréttindum á þeim lindum sem Skagafjarðarveitur nýta.“
Greinargerð:
„Skagafjarðarveitur hafa haft að leiðarljósi að tryggja íbúum og fyrirtækjum heitt vatn á hagstæðu verði og stækka þjónustusvæði hitaveitunnar. Til að svo megi verða til framtíðar er nauðsynlegt að það fari fram lagaleg úttekt á heitavatnsréttindum á þeim lindum sem Sveitarfélagið Skagafjörður nýtir.
Í samfélaginu er uppi ákveðin sókn stórfyrirtækja í að ná til sín orkuauðlindum landsins og má sjá skýr merki þess í Skagafirði. Það er mikilvægt að kjörnir fulltrúar almennings séu á varðbergi gagnvart ásælninni og tryggi að Skagafjarðarveitur geti um ókomna framtíð þjónað markmiðum sínum.“
Það er skemmst frá því að segja að tillagan var samþykkt samhljóða með þeirri breytingu að úttektinni verður einni ætlað að ná til kaldavatnslinda og mögulegra virkjunarstaða. Sannast sagna voru einstaka sveitarstjórnarfulltrúar hvorki sáttir við greinargerðina né þær skýringar sem þeir fengu með henni á fundinum án þess þó að greina í nokkru í hverju efnislega óánægjan væri fólgin.
Ég er þeirrar skoðunar að meðal sveitarstjórnarfulltrúa þurfi að geta átt sér stað heiðarleg og hreinskiptin umræða um mikilvæg hagsmunamál sem brenna á íbúum sveitarfélagsins.
Sigurjón Þórðarson
sveitarstjórnarfulltrúi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.