„Trúum mikið á okkur,“ segir Donni þjálfari

Það er stutt í fyrsta leik í Bestu deildinni. MYND: ÓAB
Það er stutt í fyrsta leik í Bestu deildinni. MYND: ÓAB

Besta deild kvenna fer í gang næstkomandi þriðjudag og þar verða Stólastúlkur í eldlínunni því lið Tindastóls fær Keflavík í heimsókn á Krókinn og hefst leikurinn kl. 18:00. Feykir tók púlsinn á Donna Sigurðssyni, þjálfara Tindastóls, og sagði hann að upphaf Bestu deildarinnar legðist frábærlega í sig.

„Það er mjög mikill spenningur innan liðsins og við getum ekki beðið eftir því að byrja sumarið af krafti. Undirbúningurinn hefur verið að mínu mati mjög góður og mikill stígandi í hópnum sem er aðalatriðið. Stelpurnar hafa bætt sig bæði sem einstaklingar og lið og eru að leggja mjög hart að sér. Standið á hópnum er heilt yfir mjög gott og mér finnst það jafnvel betra en i fyrra.“

Eru stelpurnar spenntar fyrir verkefninu framundan og hver er stefnan fyrir sumarið? „Liðið er klárlega mjög spennt fyrir sumrinu og við setjum stefnuna á að taka hvern leik fyrir sig og eðlilega reyna vinna hann og svo sjáum við hvað setur. Aðrar markmiðasetningar eru bara innan hópsins. En við ætlum okkur að standa okkur mjög vel og trúum mikið á okkur.“

Hver finnst þér munurinn á hópnum nú í vor frá því í fyrrasumar? „Hópurinn er jú svipaður en við erum skipulagðari sem lið og þekkjum ennþá betur inn á okkar styrkleika og erum enn markvissari i að bæta okkar heildarframmistöðu.“

Hvað finnst þér um aðgerðir fyrirliðanna í Bestu deild kvenna sem senda skýr skilaboð til Toppfótbolta með því að hunsa þátttöku í gerð kynningarefnis fyrir sumarið? „Ég styð 100% okkar fyrirliða og alla hina líka í þessum aðgerðum. ÍTF, KSÍ og svo sem fleiri, verða að leggja meiri vinnu og hjarta i það að vinna jafnt fyrir karla- og kvennaliðin.“

Einhver skilaboð til stuðningsmanna í lokin? „Við þurfum á brjáluðum stuðningi að halda i sumar bæði utan vallar sem og innan. Þið vitið öll hvað stuðningurinn er mikilvægur og skiptir sköpum. Og núna er fullkomið tækifæri fyrir okkur sem samfèlag að sýna öðru efstu deildar liði Tindastóls sama stuðning og við erum þekkt fyrir. Gerum þetta saman alla leið. Áfram Tindastóll!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir