Tröllaskagatvíburarnir töfruðu fólk upp úr skónum
Hin ástsæla Söngkeppni framhaldsskólanna fór fram sl. laugardagskvöld í Exton í Kópavogi í þrítugasta sinn. Keppnin, sem átti að fara fram í vor en var frestað vegna ... dúmmdúmmtrisss ... COVID-19, var að sjálfsögðu í beinni útsendingu á RÚV. Sigurvegarar kvöldsins komu frá nágrönnum okkar í Menntaskólanum á Tröllaskaga en þar fóru tvíburarnir Tryggvi og Júlíus Þorvaldssynir á kostum ásamt Herði Inga Kristjánssyni og Mikael Sigurðssyni.
Strákarnir léku jafnframt á eigin hljóðfæri en þeir fluttu lýtalausa útgáfu af laginu I'm Gonna Find Another You eftir John Mayer. Í öðru sæti varð silkimjúk söngkona, Dagmar Lilja, úr Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu en Billie Eilish-atriði Sigríðar Höllu úr Menntaskólanum í Reykavík hafnaði í þriðja sæti.
Það var hún Helena Erla, dóttir Elenóru og Árna Gunn (fyrrum ritstjóra Feykis), sem steig á svið fyrir hönd Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Hún réðist ekki á garðinn þar sem hann var lægstur, frekar en flestir keppendur kvöldsins, og flutti lagið Anyone sem Demi Lovato gerði vinsælt í ár. Flutningur Helenu á þessu erfiða sönglagi var framúrskarandi en dugði ekki til verðlaunasætis í ár.
Það eru kannski ekki alveg allir söngvararnir sem stíga á stokk í Söngkeppninni sem eiga erindi inn í stofur landsmanna en stundum þarf að taka viljann fyrir verkið. Þá mættu keppendur velja sér lög sem þeir ráða betur við því það er betra að negla lagið en negla það næstum því. Keppnin hefur hins vegar verið stökkpallur inn í sviðsljósið fyrir merkilega marga af okkar ástsælustu söngvurum. Má þar til dæmis nefna Pál Óskar, Emiliönu Torrini, Margréti Eir, Stebba Jak, Jónsa svartklædda, Magna þegar hann hafði hár, Glowie og svo okkar eigin Hrafnhildi Víglunds og Sverri Bergmann.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.