Topplið Ármanns hafði betur gegn liði Tindastóls

Sigurlið Ármanns í Síkinu sl. vor. Þær eru enn sterkari í ár og hafa verið á toppi 1. deildar mest allt tímabilið. MYND AF FACEBOOK
Sigurlið Ármanns í Síkinu sl. vor. Þær eru enn sterkari í ár og hafa verið á toppi 1. deildar mest allt tímabilið. MYND AF FACEBOOK

Kvennalið Tindastóls mætti í Kennaraháskólann í Reykjavík í gærkvöldi þar sem lið Ármanns bauð upp á smá kennslustund í körfubolta. Lið Ármanns hefur spilað glimrandi vel í vetur og trónir á toppi 1. deildar kvenna en liðið hefur aðeins tapað tveimur leikjum á tímabilinu. Þær náðu strax undirtökunum gegn Stólastúlkum sem börðust þó fyrir sínu en niðurstaðan varð 82-59 fyrir heimastúlkur.

Lið Ármanns var ekkert að slaka á klónni í gær þrátt fyrir að ná yfirhöndinni strax í byrjun og aðeins sjö stúlkur komu við sögu í leiknum hjá þeim. Allar níu stúlkurnar sem voru á skýrslu hjá Stólunum fengu að stíga dansinn í Kennaraháskólanum. Ármann komst í 9-2 en lið Tindastóls svaraði fyrir sig, 12-9, en þá komu tíu stig í röð frá heimastúlkum. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 24-14 og fljótlega var forskotið orðið 16 stig í öðrum leikhluta. Stelpurnar okkar náðu muninum niður í tólf stig fyrir hlé en þá var staðan 41-29.

Fyrstu þrjár mínútur síðari hálfleik héldu Stólastúlkur í horfinu en í stöðunni 47-34 lokaðist leiðin að körfu heimastúlkna sem náðu þá 16-0 kafla, komust semsagt í 63-34. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 67-40 en lið Tindastóls náði skínandi kafla í byrjun þess fjórða og gerði þá ellefu stig án þess að heimastúlkur næðu að svara. Það fór svo að Tindastóll vann síðasta fjórðunginn 15-19 en það dugði að sjálfsögðu ekki til og stigin tvö því til toppliðs Ármanns.

Madison Anne Sutton var lögum samkvæmt atkvæðamest í liði Tindastóls, gerði 24 stig, tók 17 fráköst og átti fimm stoðsendingar. Anna Karen skutlaði niður sínum samningsbundnu fjórum þristum og endaði með 12 stig líkt og Eva Rún sem tók einnig sex fráköst og átti átta stoðsendingar. Þá var Berglind Ósk með sex stig. Í liði Ármanns voru þær Jónína Þórdís og Schekinah stigahæstar með 22 stig.

„Ég er virkilega stoltur af stelpunum“

Feykir sendi Jan Bezica, þjálfara Tindastóls, nokkrar spurningar í morgun og byrjaði að spyrja hvað honum þætti um leiki liðsins nú á nýju ári og hvort hann væri stoltur af stelpunum. „Leikirnir sem við spiluðum eftir áramót sýndu að við erum að bæta okkur með hverjum deginum. Ég er virkilega stoltur af stelpunum því þær mæta á hverja æfingu til að sanna fyrir sjálfum sér að þær geti gert góða hluti. Eftir áramót spiluðum við nokkra mjög góða leiki og það sýnir að okkur æfingarnar fyrir áramót hafi skilað árangri.“

Varstu ánægður með frammistöðu liðsins gegn Ármanni? „Fyrir leikinn gegn Armann áttum við í nokkrum heilsuvandamálum en mættum samt til að keppa. Lið Ármanns er á toppi deildarinnar af ástæðu en við gáfumst ekki upp fyrir leikinn og sýndum nokkrar góðar mínútur. Auðvitað lærðum við mikið af þessum leik.“

Hvert er markmið Tindastóls fyrir síðustu leikina? „Við förum leik fyrir leik. Markmið okkar núna er að hvíla okkur vel og gera okkur klár fyrir síðustu þrjá leikina og auðvitað viljum við alltaf vinna og við spilum til að vinna.“

Hvað þarf til að gera þjálfarann ánægðan? „Þjálfarinn er alltaf ánægður með liðið, ég sé að stelpurnar ná vel saman og það er það sem skiptir máli til að bæta sig og spila góða leiki. Ef stelpurnar eru ánægðar og njóta þess að spila þá er það stærsti vinningurinn fyrir mig,“ segir Jan að lokum en Stólastúlkur eiga mikilvægan leik 12. mars nk. þegar lið Aþenu/UMFK kemur í Síkið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir