Tólf manns nú í einangrun á Norðurlandi vestra vegna Covid-19
Heldur hefur nú fækkað í hópi þeirra íbúa á Norðurlandi vestra sem sæta einangrun vegna Covid-smita. Í þessari bylgju faraldursins nú í nóvember voru mest 20 manns í einangrun samtímis á svæðinu en samkvæmt stöðumynd frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra eru nú tólf manns í einangrun og 17 í sóttkví. Skiptingin er hnífjöfn milli Skagafjarðar og Húnavatnssýslna, sex í einangrun sitt hvoru megin Þverárfjalls og þrír í einangrun í sitt hvorri Húnavatnssýslunni.
Í gær greindust 112 smitaðir á landsvísu og eru nú alls 1.775 manns í einangrun á landinu og 2.327 í sóttkví. Á föstudaginn voru 25 manns á sjúkrahúsi vegna Covid og fimm á gjörgæslu. Nýgengi innanlandssmita er nú 567 sem er miðað við 14 daga nýgengi á 100 þúsund íbúa.
Ólíkt fyrri bylgjum Covid þá er dreifing smita nú víðfem og allir landshlutar standa í baráttunni. Þegar þetta er skrifað eru fæstir í einangrun á Norðurlandi vestra en skjótt skipast veður í lofti því síðast þegar Feykir gortaði af góðum tíðindum í Covid-baráttunni á svæðinu kom bakslag nánast samdægurs.
Við skulum því muna að vera ábyrg og passa upp á okkur og aðra með því að nota grímur þegar það á við og muna að spritta hendur og virða nálægðarmörk.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.