Tíundi sigur Tindastóls í röð

Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson sækir að varnarmanni Dalvíkur/Reynis.  MYND: ÓAB
Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson sækir að varnarmanni Dalvíkur/Reynis. MYND: ÓAB

Tindastólsmenn fengu lið Dalvíkur/Reynis í heimsókn á Krókinn í kvöld og var viðureignin nokkuð spennandi þó ekki hafi leikurinn verið sérlega rismikill. Tindastóll var þó sterkari aðilinn eins og búast mátti við og uppskar sigurmark þegar skammt var til leiksloka. Stólarnir eru því á toppnum eftir ellefu umferðir og hafa nú sigrað í tíu leikjum í röð í 3. deildinni.

Lið Tindastóls lék undan napri norðangolu í fyrri hálfleik og skapaði sér nokkur færi en fátt var um dauðafæri. Gestirnir létu Brentton Muhammad í marki Stólanna hafa aðeins fyrir sér snemma leiks en þá varði hann boltann í stöng. Eyfirðingar sköpuðu fátt annað markvert í fyrri hálfleik og staðan 0-0 í hálfleik.

Heldur dró úr vindinum í síðari hálfleik og áfram voru það Tindastólsmenn sem réðu ferðinni en vörn gestanna var seig með Snorra Eldjárn Hauksson fyrirliða í fínu formi. Lið Dalvíkur/Reynis náði góðri skyndisókn um miðjan síðari hálfleik, komust á auðan sjó en skutu yfir mark Tindastóls. Leikar æstust eftir því sem á leið og dómarinn sýndi gula spjaldið reglulega.  Ragnar Gunnars, Óskar Smári og Hólmar Skúla komu inná hjá heimamönnum til að fríska upp á sóknina og það var loks á 88. mínútu sem sigurmark leiksins leit dagsins ljós. Þá náði Kenneth Hogg að búa sér til pláss á milli varnarmanna gestanna og Bjarni Smári átti silkisendingu beint í svæðið og Hogg stakk sér inn fyrir og skoraði af öryggi.

Stólarnir hafa oft spilað betur í sumar en gestirnir voru vel skipulagðir og gáfu fá færi á sér. Hogg og Stephen Walmsley áttu fínan leik og vörnin stóð vel fyrir sínu með Muhammad í fyrirlestraformi fyrir aftan sig.

Næsti leikur Tindastóls er einnig hér heima en fimmtudaginn 4. ágúst kemur lið Reynis úr Sandgerði á Krókinn. Síðan heimsækja Stólarnir Knattspyrnufélag Rangæinga sem gerði sér lítið fyrir í kvöld og skellti Víði Garði 6-1 á SS-vellinum – létt slátrun í gangi þar. Lið Tindastóls er því eitt á toppi 3. deildar með 30 stig að loknum ellefu leikjum

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir