Tindstælingar í æfingabúðir yngri landsliða KKÍ
Um helgina mun U16 ára lið drengja í körfubolta hefja æfingar en hópurinn æfði síðast saman í mars. Framundan er NM U16 liða á dagskránni í byrjun ágúst. Tvíburabræðurnir Orri Már og Veigar Örn Svavarssynir úr Tindastól eru í upphafshópnum sem þeir Ágúst S. Björgvinsson, þjálfari liðsins og aðstoðarþjálfarar, Karl Ágúst Hannibalsson og Chris Caird, völdu.
Greint er frá því á heimasíðu Körfuknattleikssambands Íslands að hópurinn muni í fyrstu æfa í sama hóp og var valinn í vetur en svo verður hann minnkaður niður í, fyrst í 16 leikmenn og loks loka hóp skipuðum tólf leikmönnum, á næstu vikum.
Þá var Klara Sólveig Björgvinsdóttir, leikmaður Tindastóls, valin í æfingahóp U15 ára landsliðsins sem kom saman um síðustu helgi. Sú æfingahelgi var sú fyrsta af þremur hjá liðinu þetta sumarið en á kki.is segir að ljóst hafi verið snemma í vor að engin mót yrðu í ár vegna COVID-19.
Fyrir ættfræðiþyrsta eru foreldrar Orra Más og Veigars Arnar þau Svavar Birgisson og Kolbrún Marvía Passaro en Ingi Björgvin Kristjánsson og Brynhildur Jóhannsdóttir eru foreldrar Klöru Sólveigar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.