Tindastóll mun áfrýja niðurstöðu aganefndar KKÍ

Það hefur sennilega ekki farið framhjá mörgum körfuboltaáhugamönnum að niðurstaða fékkst í gær í kærumáli Hauka á hendur Tindastólsmönnum þar sem Stólarnir tefldu fram ólöglegum leikmanni, eða fjórða erlenda leikmanninum, í bikarleik liðanna á dögunum. Samkvæmt laganna bókstaf er refsingin við brotinu á þann veg að liðinu sem brýtur af sér er dæmt 0-20 tap og sekt upp á krónur 250 þúsund. Og það reyndist niðurstaða aganefndar KKÍ. Að sögn Dags Þórs Baldvinssonar, formanns körfuknattleiksdeildar Tindastóls, mun félagið að sjálfsögðu áfrýja niðurstöðunni til áfrýjunardómstóls KKÍ.

Stólarnir sannarlega voru, fyrir mistök í innáskiptingu, með fjóra erlenda leikmenn á gólfinu á meðan Haukar tóku tvö vítaskot. Þeir áttuðu sig strax á mistökunum en dómarar leiksins leyfðu þeim ekki að leiðrétta skiptinguna áður en vítin voru tekin. Þjálfari Tindastóls bað um leikhlé og skipti einum erlenda leikmanninum út um leið og vítin höfðu verið tekin. Það leið því ekki ein sekúnda af leiktíma á meðan þessir fjórir erlendu leikmenn voru inni á vellinum samtímis.

Það verður að teljast með ólíkindum að Haukar hafi ákveðið að kæra leikinn miðað við málsatvik. Komið hefur fram í máli nokkurra aðila að Haukar kæri sig ekki um að fara áfram í VÍS bikarnum á þessum forsendum en þeir kærðu engu að síður og hafa því væntanlega gert sér vonir um að komast áfram með þessum hætti.

Þá er það mat flestra sérfræðinga að regla þessi, sem KKÍ setti í lög í sumar, sé með ólíkindum illa ígrunduð og refsingin ekki í nokkru samræmi við brot af þessu tagi og engan veginn leiknum til framdráttar.

Lið Tindastóls vann leikinn örugglega, 88-71, og varla hægt að segja að það sé í anda leiksins að Haukar komist áfram í bikarnum á þessu atriði því augljóslega voru Stólarnir ekki að reyna að svindla. Málið dregst þó væntanlega eitthvað á langinn og kannski ekki öll kurl komin til grafar þar sem Tindastóll mun, sem fyrr segir, áfrýja niðurstöðunni.

Úrskurð má lesa í heild sinni hér>

UPPFÆRT! Í frétt á Vísi.is frá því í hádeginu í dag má lesa tillögu Hauka að lausn málsins >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir